- Advertisement -

Flutningaskipin menga mest

Umhverfisráðherra segir raftengingu skemmtiferðaskipa kosta of mikið.

Guðmundur Ingi umhverfisráðherra:
Ég tel að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar inn í þá umræðu sem hér er í gangi.
Ljósmynd: Rúv.

„Ég teldi æskilegt að skemmtiferðaskip notuðu rafmagn frá landi þegar þau liggja við bryggju. Gróft mat hefur bent til þess að kostnaður við háspennutengingar fyrir stór skip á borð við skemmtiferðaskip sé hins vegar mjög mikill og nýtingartíminn mjög stuttur sem myndi þýða að slíkt væri kannski síður hagkvæmt en margar aðrar aðgerðir í loftslagsmálum ef litið er til þessara þátta,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á Alþingi.

„Það er þó þróun í tækni á þessu sviði og ég tel rétt að skoða slíka möguleika betur í samvinnu við orkufyrirtæki og aðra og til lengri tíma litið finnst mér einsýnt að raftenging eða þá annað endurnýjanlegt eldsneyti sé notað fyrir öll skip við bryggju. Þar þurfum við að beita skynsamlegri forgangsröðun svo við náum sem mestum árangri fyrir þá fjármuni sem eru hverju sinni í loftslagsmálum.“

Nokkuð merkilegt kom fram í ræðu ráðherrans. Flutningaskip menga mest allra skipa:

„Undanfarin þrjú ár hafa Faxaflóahafnir látið reikna losun brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og svifryks frá öllum skipum sem leggjast að bryggju í höfnum í þeirra umsjón, íslenskra sem erlendra. Ég vek athygli á því að um helmingur losunarinnar kemur frá flutningaskipum, um þriðjungur frá skemmtiferðaskipum og afgangurinn frá fiskiskipum og öðrum skipum. Ég tel að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar inn í þá umræðu sem hér er í gangi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: