- Advertisement -

Ekki bara öryrkjar sem búa við bág kjör

Þingmaðurinn spyr að því hvort nóg sé að gert gagnvart þeim sem hafa lægstar tekjur í þessu samfélagi.

„Ég vil nú meina að það séu ekki einungis öryrkjar vegna þess að það eru fleiri sem búa við bágust kjörin en örorkulífeyrisþegar. Þá vil ég segja: Nei, við erum aldrei búin að gera nóg hvað það snertir. Það er þyngra en tárum taki að á hverju ári skulum við horfa upp á það í okkar ríka samfélagi að fólk þurfi að standa í röðum fyrir jólin til að þiggja mat. En við erum að vinna að margvíslegum aðgerðum til að draga úr slíku,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á Alþingi í dag.

Hann brást þar við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar.

Hann spurði hvort Ásmundur Einar geti upplýst öryrkja um það hvenær uppbót upp á 10.000 kr. skatta- og skerðingarlaust verður borguð út? Verður það fyrir jól eða ekki? Það væri gott fyrir þennan hóp að vita það því að hann fékk minnsta jólabónusinn fyrir utan alla þá sem urðu fyrir skerðingu vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og annarra skattskyldra greiðslna og fengu því ekkert, fengu ekki krónu í jólabónus í boði þessarar ríkisstjórnar sem er ömurleg framkoma við þá sem verst standa í þjóðfélaginu og þurfa mest á stuðningi að halda.

Guðmundur Ingi Kristinsson:
Ég spyr: Er hann ekki með neinar lausnir á þessu? Á þetta að vera svona í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn?

Ásmundur Einar svaraði: „Þingmaðurinn nefndi sérstaklega 10.000 kr. desemberuppbót sem eigi að vera skattfrjáls og eigi ekki að skerða. Hún er til komin m.a. vegna aðgerða þessarar ríkisstjórnar í gegnum fjárlaganefnd og meiri hluta hennar sem vinnur að slíkri tillögu. Þegar búið er að samþykkja hana getum við sett það í farveg að undirbúa að greiða hana út. Það mun auðvitað taka einhvern tíma en vonandi ekki of langan. Við getum ekki gert það fyrr en búið er að samþykkja málið svo það geti farið í farveg og Tryggingastofnun síðan greitt þetta út. Þar er hugsunin sú að aukauppbótin sem þar komi inn verði bæði skattfrjáls og valdi ekki skerðingum annars staðar í kerfinu.“

Guðmundur Ingi: „Við horfum upp á það að við þingmenn fáum fullan jólabónus, óskertan, nema bara skattaðan. Það fá hann allir nema þessi eini hópur. Þá er verið að nota allar tekjur til að skerða jólabónusinn. Fyndist honum þetta eðlilegt? Hann svaraði að þetta væri bara vegna þess að það hefði viðgengist undanfarin ár. Er það þá eðlilegt að svona hlutir viðgangist ár eftir ár? Þá hlýtur hann að líta sömu augum á þá sem þiggja mataraðstoð vegna fátæktar. Þeir eigi að bíða ár eftir ár. Ég spyr: Er hann ekki með neinar lausnir á þessu? Á þetta að vera svona í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: