- Advertisement -

Kolbrún hjólar í mótmælendur Íslandsbankasölunnar: „Þetta fólk saknar tímans þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur“

Kol­brún Ber­þórs­dóttir, blaða­maður Frétta­blaðsins, gagnrýnir öll mótmælin í samfélaginu vegna sölu ríksins á hlutnum í Íslandsbanka. Gagnrýni sína setur hún fram í nýjum leiðara í Fréttablaðinu.

„Það er örugg­lega ekki vin­sæll þanka­gangur nú um stundir en samt skal spurt hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Ís­lands­banka sé ekki full­mikill? Djöful­gangur stjórnar­and­stöðunnar er skiljan­legur þótt erfitt sé að hafa þolin­mæði með honum. Stjórnar­and­staðan þráir ekkert meir en að fella ríkis­stjórnina og virðist til­búin að grípa til hvaða ráða sem er til að það mark­mið náist. Um leið verða ýkjur, gífur­yrði og út­úr­snúningar sjálf­sagður hluti af mál­flutningnum. Ein­mitt þetta gerir stjórnar­and­stöðuna ó­trú­verðuga í þessu á­kveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum,“ segir Kolbrún og heldur áfram:

„Vissu­lega blasir við að í Ís­lands­banka­málinu var sumu klúðrað. Það jafn­gildir hins vegar ekki sið­leysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjöl­margir haldi því fram. Það hentar stjórnar­and­stöðunni til dæmis af­skap­lega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tor­tryggni meðal al­mennings.

„Það hvarflar jafn­vel að manni að þetta fólk sakni tímans þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur og sé nú að reyna að endur­skapa hann. Þótt slatti af fólki sé á Austur­velli þá eru mót­mælin nú ekki veru­lega fjöl­menn. Það hljóta að vera um­tals­verð von­brigði fyrir æsinga­fólkið.

Flestir þeir pistla­höfundar sem harð­orðastir eru vegna málsins eru yfir­lýstir and­stæðingar Sjálf­stæðis­flokksins og kalla á­gæta ríkis­stjórn, undir stjórn fram­úr­skarandi for­sætis­ráð­herra, öllum illum nöfnum. Þar eru sem sagt á ferð „the usu­al suspects“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Spyrja má hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir að þetta fólk færi upp á háa c-ið hvernig sem hefði verið staðið að sölu Ís­lands­banka. Það hefði ætíð þefað uppi tæki­færi til að öskra upp­á­halds­orð sín: Spilling! Van­hæf ríkis­stjórn!“

„Það er bæði sjálf­sagt og eðli­legt að fara ofan í saumana á sölu Ís­lands­banka, en þeir sem fá það hlut­verk verða að búa yfir yfir­vegun en ekki lifa í stöðugri van­stillingu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: