- Advertisement -

Ásdís Halla segir Klíníkina ódýrari en Landspítala

„Að auki má nefna að aðgerðin á Klíníkinni kostar um 80% af því sem hún kostar í opinbera kerfinu og því væri hægt að hjálpa enn fleiri sjúklingum ef stjórnmálamenn tækju ákvarðanir með hagsmuni þeirra að leiðarljósi,“ skrifar Ásdís Halla Bragadóttir á Facebook í gærkvöld.

Annars er þetta færsla Ásdísar Höllu: „Hversu fáranlegt er það að ríkið hefur borgað fyrir all nokkra íslenska sjúklinga sem hafa flogið til Svíþjóðar til að fá nýtt hné eða mjöðm hjá Hjálmari Þorsteinssyni bæklunarskurðlækni en eftir að hann flutti til Íslands til að framkvæma sömu aðgerðir á Klíníkinni í Ármúla þá segir ríkið: ,,Nei, við borgum ekki núna – við borgum bara ef aðgerðin er framkvæmd í útlöndum!“ Mörg hundruð manns eru á löngum biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og þeim væri hægt að hjálpa hratt og örugglega ef stjórnvöld hugsuðu heilbrigðisþjónustuna út frá þörfum sjúklinganna og tryggðu jafnt aðgengi óháð efnahag. Að auki má nefna að aðgerðin á Klíníkinni kostar um 80% af því sem hún kostar í opinbera kerfinu og því væri hægt að hjálpa enn fleiri sjúklingum ef stjórnmálamenn tækju ákvarðanir með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.“

Margir eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að gera samning við Klíníkina um einkarekið sjúkrahús. „Ef beiðni Klíníkurinnar í Ármúla um opnun á fimm daga legudeild verður samþykkt, stefnir í eðlisbreytingu á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar líkt og gerst hefur í Bretlandi. En þar hafa „almennir“ fjárfestar m.a. fjármagnað sjúkrahúsrekstur síðan 1991. Með þeirri breytingu jókst krafa um kostnaðaraðhald og hærri arðgreiðslur með þeim afleiðingum að gæðum heilbrigðisþjónustunnar í Bretlandi hrakaði svo um munaði. Því má spyrja hvort búast megi við að sömu kröfur komi fram meðal eigenda/fjárfesta Klíníkurinnar í Ármúla.“ Skrifar Ólafur Ólafsson fyrrverandi landdlæknir.

„Væntingar um gróða eru athafnahvetjandi meðal margra, en brýnt er að gróðalöngun meðal trúnaðarmanna almennings stjórni ekki alfarið,“ skrifar hann einnig. Og svo: „Það er engin þörf á að breyta núverandi fyrirkomulagi einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu hér á landi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: