- Advertisement -

Ánægjulegt að sjá þingmenn kveikja á perunni

„Á 16 ára tímabili hefur aflaukning í kerfinu numið um 384 MW eða sem nemur einungis um 24 MW á ári.“

Ingibjörg Isaksen.

Alþingi „Það er afar ánægjulegt að sjá kollega mína hér á þingi loksins kveikja á perunni og átta sig á þeirri stöðu sem við erum í,“ sagði Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, á Alþingi í gær.

Ingibjörg var upphafsmaður umræðu um orkumál.

„Kyrrstaða hefur ríkt um árabil og niðurstaðan er sú að orkuöryggi okkar er ógnað. Sú sorglega staða að við sjáum okkur knúin til þess að leggja fram frumvarp til að tryggja heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum forgang að raforku og horfum á fyrirtæki neyðast til að brenna olíu vegna skerðingar raforku til að halda daglegri starfsemi sinni er með öllu óásættanleg.

Orkuöflun undanfarin ár hefur ekki verið næg…

Skerðing raforku kostar ríkissjóð, atvinnulífið og samfélagið allt talsverðar fjárhæðir á hverju ári. Samningar fyrirtækja vegna ótryggrar orku eru mikilvægir til að fullnýta kerfið og gera ráð fyrir skerðingum en skerðingunum hefur þó fjölgað og vara í lengri tíma en áður og fyrirséð að þeim muni fjölga enn frekar á næstu árum.

Því er eflaust hægt að spyrja sig hvort um forsendubrest sé nú að ræða. Orkuöflun undanfarin ár hefur ekki verið næg þrátt fyrir ábendingar sérfræðinga um yfirvofandi orkuskort og þrátt fyrir áskoranir í loftslagsmálum, fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna og aukna framleiðni fyrirtækja. Á 16 ára tímabili hefur aflaukning í kerfinu numið um 384 MW eða sem nemur einungis um 24 MW á ári. Ljóst er að stórauka þarf orkuöflun ef við ætlum að tryggja orkuöryggi hér á landi og ná okkar markmiðum í loftslagsmálum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: