- Advertisement -

ASÍ er á villigötum

Allt á verkalýðshreyfingin þetta EES samningnum að þakka.

Haukur Arnþórsson skrifar:

Einkennilegt er að ASÍ ráðist svona að hagsmunum verkafólks og annarra umbjóðanda sinna. Ljóst er að EES samningurinn á drjúgan þátt í því að auka þjóðartekjur og halda kaupmætti launa uppi. Hætt er við því að launafólk myndi finna rækilega fyrir því ef árásirnar á þann samning skyldu nú bera ávöxt. Óhuggulegt er að sjá ASÍ ráðast að hagsmunum launafólks en samþykkt þess verður ekki talin annað en árás á EES samninginn.

Þá eru meginefnisatriði þessa máls afflutt. EES samningurinn segir til um aðskilnað ólíkrar starfsemi, svo sem framleiðslu, dreifingar og eftirlits. Hann segir hins vegar ekki til um að fyrirtæki megi ekki vera í opinberri eigu eða not-for-profit. Það eru hins vegar í honum ákvæði um að ekki megi nota opinbera styrki þar sem samkeppni er, ákvæði sem ekki hindra opinbert eignarhald. Það að koma innviðum í einkaeigu og gera þá að gróðalind er íslensk nýfrjálshyggja og berst okkur ekki frá Evrópu í fyrirmælum.

Í stað stjórnmálaspillingarinnar höfum við fengið stjórnsýslureglur, upplýsingalög og nokkuð endalaust af stjórnvaldsreglum sem valda jöfnuði og hindra að stjórnmálamenn geti hyglað flokksmönnum sínum. Allt á verkalýðshreyfingin þetta EES samningnum að þakka.

Þessi faglegu fyrirmæli EES samningsins eru mjög mikilvæg eins og allir þekkja sem t.d. þekkja sögu Landsímans, sem var okurfyrirtæki sem starfaði í skjóli stjórnmálamanna. Þar á bæ var framleiðslu, dreifingu og eftirliti svo sannarlega blandað saman – og ráðuneyti símamála gerði bara eins og Landssíminn sagði. Mikið verk var að vinda ofan af þessu kerfi og skapa eðlilegri uppbyggingu innviða í fjarskiptum. Enn er barist við Símann því bæði hann og Gagnaveitan lögðu ljósleiðara – en ljósleiðari er eins og skolplagnir, á að vera einn vegna gríðarlegs kostnaðar sem annars leggst á notendur – og á að vera öllum opinn. Nú er barist um hvað mörg 5G símkerfi verða byggð upp, en þau eru svo kostnaðarsöm að aðeins á að byggja upp eitt í hverju landi og opna það síðan fyrir þjónustu annarra. Fjarskiptakostnaður er alls staðar á niðurleið og á að vera það. Aðskilnaður ólíkra hlutverka er lykilatriði – og í þágu verkafólks.

Þá má nefna þá gerbreytingu á stjórnsýslu sem við höfum fengið ókeypis í hendurnar með EES samningnum sem stórbætir hagsmuni almennings. Man enginn eftir því þegar stjórnmálamenn úthlutuðu lóðum í Reykjavík, stjórnmálamenn útveguðu húsnæðislán o.s.frv. Í stað stjórnmálaspillingarinnar höfum við fengið stjórnsýslureglur, upplýsingalög og nokkuð endalaust af stjórnvaldsreglum sem valda jöfnuði og hindra að stjórnmálamenn geti hyglað flokksmönnum sínum. Allt á verkalýðshreyfingin þetta EES samningnum að þakka.

EES samningurinn er mesta og besta endurbót á stjórnmálum og stjórnsýslu sem Ísland hefur fengið fyrr og síðar og styður hagsmuni almennings í öllum atriðum sem skipta meginmáli. Ég er að vinna núna að rannsókn á því hvernig samningurinn hefur breytt hagsmunum almennings til hins betra síðan hann var samþykktur – og hún mun birtast síðar á árinu.

ASÍ er á villigötum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: