- Advertisement -

Bjarni situr uppi með Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna

Staðan er samt sú að enginn arftaki er í sjónmáli. Sannast þá enn og aftur að staðan er sú að flokkurinn situr uppi með Bjarna og Bjarni situr uppi með flokkinn, sagði Sigurjón Magnús Egilsson blaðamaður í vikulegu spjalli þeirra bræðra og blaðamanna, hans og Gunnars Smára Egilssonar við Rauða borðið. Þeir ræddu uppreisn gegn forystu Sjálfstæðisflokksins en voru ekki á því að hún leiddi til nokkurs nema viðvarandi óánægju með verklitla ríkisstjórn.

Sigurjón benti á að Bjarni Benediktsson væri strandaður í verkefni sínu. Hann sé ekki búinn að færa hinum auðugu bankana og það er langt í að hann geti selt þeim Landsvirkjun, svo dæmi sé tekið. Hans afrek er að standa í vegi fyrir breytingum, svipað og er hlutverk Moggans í þágu stórútgerðarinnar. Að stoppa breytingar gagnvart kvótakerfinu, krónunni og ESB, eins og Óskar Magnússon orðaði það á sínum tíma.

Gunnar Smári sagði réttlætingu Bjarna ekki ganga upp lengur. Hann hefði réttlætt afleidda útkomu í kosningum með því að hann hefði haldið flokknum að völdum. Nú væri komið í ljós að það færði flokknum ekki nein áhrif. Hann næði málum sínum ekki í gegnum ríkisstjórnina að mati margra almennra flokksmanna. Bjarni skilaði því hvorki fylgi né áhrifum, aðeins stólum. Og það pirrar almennt flokksfólk.

En mun ganga eftir það sem Brynjar Níelsson spáir? Að eftir verslunarmannahelgi knýi Sjálfstæðisflokkurinn fram breytingar á ríkisstjórn eða slíti samstarfinu ella?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þá er engin réttlæting eftir til að halda Bjarna sem formanni.

Þeir bræður voru ekki endilega á því. Flokksmenn hafa trú á að Sjálfstæðisflokkurinn geti náð góðum árangri í kosningum, alla vega viðunandi. Bjarni getur hins vegar ekki treyst á það og hætt á að vera utan stjórnar. Þá er engin réttlæting eftir til að halda Bjarna sem formanni. Formaður sem skilar ekki fylgi og ekki völdum er einskis nýtur. Og þá yrði loks skipt um formann, sem erfitt er að sjá hver gæti verið. Flokkurinn er margklofinn í ólíkar klíkur og hópa sem illa treysta hver öðrum og vilja síst af öllu una öðrum klíkum að leiða flokkinn.

Og það er vandinn. Þess vegna situr Bjarni uppi með Sjálfstæðisflokkinn þótt hann sé orðinn þreyttur, fúll og leiður. Og Sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna þar sem enginn skárri kostur er í boði.

Þess vegna er líklegast af vaxandi ólund Brynjars Níelssonar, Elliða Vignissonar og slíkra muni aðeins krauma án niðurstöðu. Brynjar bauð sig fram í prófkjöri 2021 með þetta erindi, að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti á ólundarlegri rödd hans að halda en fékk ekki góða kosningu. Þótt Brynjar og félagar upplifi sig sem flokkinn þá hefur forystan náð völdum og haldið þeim þrátt fyrir kvartanir Brynjars og félaga.

Á vakt Bjarna hefur hann margklofnað.

Þeir bræður ræddu líka að Sjálfstæðisflokkinn er ekki það sem hann var áður. Á vakt Bjarna hefur hann margklofnað. Ekki bara við stofnun Viðreisnar heldur var Flokkur fólksins stofnaður af Sjálfstæðisflokksmönnum og raðaði slíkum í öll kjördæmi nema það sem Inga Sæland leiddi. Og Miðflokkurinn hafi sömuleiðis stillt upp Sjálfstæðismönnum ekki síður en Framsóknarmönnum.

Þetta væru afleiðingar þess að forysta flokksins sæktist ekki eftir samstarfi við flokksfólk heldur fyrst og síðast stórauðvaldið, Samstök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, stórútgerðina o.s.frv. Þau öfl vildu sjá Bjarna halda áfram með verkefnið. Mögulega gefast þau upp á Bjarna þegar allt er frosið, en það er ekki fyrr en það gerist að eitthvað breytist í flokknum.

Horfa má á og hlusta á samtalið í spilaranum hér að neðan:


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: