- Advertisement -

Davíð krefst þess að Páll Gunnar verði rekinn

Gunnar Smári skrifaði þessa grein á vef Samstöðvarinnar.

„Hins veg­ar blas­ir við að Páll Gunn­ar Páls­son for­stjóri Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins hef­ur í þess­um efn­um ekki aðeins mis­beitt valdi sínu, held­ur hef­ur hann og yf­ir­stjórn SKE hvað eft­ir annað farið með rangt mál gegn betri vit­und. Af­vega­leitt al­menn­ing. Á því leik­ur ekki minnsti vafi leng­ur og það kall­ar á taf­ar­lausa lausn,“ skrifar Davíð Oddsson í leiðara Mogga dagsins. Þar heldur hann áfram að enduróma kröfur stórauðvaldsins um að Páll Gunnar verði rekinn og samkeppniseftirlit minnkað.

Morgunblaðið, undir stjórn Davíðs, hefur fjallað lítið sem ekkert um samsæri skipafélaganna gegn almenningi sem Samkeppniseftirlitið afhjúpaði og eigendur Eimskips viðurkenndu. Sama má reyndar segja um aðra meginstraumsmiðla. Lítið hefur verið fjallað um málið sem afhjúpaði hvernig fákeppnisfyrirtæki hegða sér á svokölluðum markaði, sem er í tilfelli fákeppnisfyrirtækjanna aðeins vettvangur fyrir beint eða óorðað samráð um að okra og svindla á fólki og fyrirtækjum. En þegar kemur að niðurstöðu úrskurðarnefndar samkeppnismála, sem leidd var að fyrrum starfsmanni útgerðarinnar, þar sem fallist var á allar umkvartanir Guðmundar Kristjánssonar í Brim um rannsókn Samkeppnisyfirlitsins á eignarhaldi í sjávarútvegi, þá ræður Morgunblaðið sér ekki yfir hneykslan, aldrei upplifað annað eins óréttlæti. Blaðið hefur ekki aðeins skrifað margar fréttir á vef sinn og í blaðið heldur fjölda ritstjórnargreina. Það að yfirvöld vilji fá fram raunverulegt eignarhald stórútgerðarinnar, sem sölsað hefur undir sig stærstan hluta af sjávarauðlindinni, gengur fram af Davíð, Mogganum og eigendum hans.

Á laugardaginn líkti Davíð, sem ritstýrir Mogganum í umboði stórútgerðarinnar, þessari rannsókn Samkeppniseftirlitsins og vilja matvælaráðherra til að draga eignarhald þeirra fyrirtækja fram, sem nýta auðlindir almennings, við Stasi, austur-þýsku leyniþjónustuna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ef til vill er það þó afstaða mat­vælaráðherra til rík­is­valds­ins og hins frjálsa þjóðskipu­lags sem mest­ar áhyggj­ur vek­ur. Í gær áréttuðu Sam­tök at­vinnu­lífs­ins mik­il­vægi meðal­hófs í upp­lýs­inga- og gagna­öfl­un hins op­in­bera, en þegar mbl.is innti Svandísi álits á því stóð ekki á svör­um: „Ég held að það sé mik­il­vægt að at­vinnu­starf­semi í land­inu sé þannig að hún hafi ekk­ert að fela.““ skrifaði Davíð. Og bætti við: „Stasi hefði ekki getað orðað það bet­ur.“

Morgunblaðið hefur engin áhrif út í samfélaginu lengur, en ritstjórnargreinar þess endurspegla hvernig rætt er um samfélagið í bakherbergjum Valhallar, höfuðstöðum Sjálfstæðisflokksins, lykilflokks ríkisstjórnarinnar. Í þessum skrifum kemur fram botnlaus fyrirlitning á almannavaldinu og rétt þess til að fylgjast með og veita auðvaldinu aðhald. Og jafnframt algjör sinnuleysi gagnvart brotum auðvaldsins gagnvart almenningi. Það er lína Moggans að það beri að verja stór-auðvaldið gagnvart almannavaldinu en alls ekki almenning gagnvart stór-auðvaldinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: