- Advertisement -

Efnahagur: Óveðursskýin hrannast upp

Bjarni vill ólmur selja Íslandsbanka.

„Óveðursský hafa hrannast upp í efnahagslífinu á undanförnum misserum og kannski ekki síst á síðustu mánuðum. Það er að raungerast það sem ríkisstjórnin var ítrekað vöruð við, þ.e. að of bratt væri farið í útgjaldaaukningu á grundvelli óraunhæfra efnahagsforsendna,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, á Alþingi.

„Ríkisstjórnin hefur hingað til skellt skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum en þó virðist það vera að breytast. Hæstvirtur menntamálaráðherra kom fram með tillögur um viðamiklar efnahagsaðgerðir í viðtali í Morgunblaðinu, meðal annars um verulega innspýtingu í innviðafjárfestingar og sérstaka lækkun á tryggingargjaldi sem hæstvirtur ráðherra sagði að nyti að sínu viti stuðnings ríkisstjórnarflokkanna og að öllum líkindum stuðnings stjórnarandstöðuflokka líka. Ég skal reyndar segja það hér og nú að ég tel þessar hugmyndir álitlegar,“ sagði Þorsteinn.

„Ég hef svo sem nefnt það áður í pontu að þetta væri tímapunkturinn sem við ættum að fara í verulegar innviðafjárfestingar, ráðast í stórátak og jafnvel breyta lögum um opinber fjármál til að takast á við það,“ sagði Þorsteinn og spurði svo Bjarna Benediktsson hvort hugmyndir Lilju njóri stuðnings innan ríkisstjórnarinnar.

Bjarni svaraði því helst að selja þurfi Íslandsbanka. „Aðalatriðið er að menn leggi af stað, taki ákvörðun um að umbreyta eigninni þegar réttu aðstæðurnar skapast.“ Bjarni er ekki á því að rétt sé að reka ríkissjóð með tapi: „Ég held að lykilatriðið í þessu efni liggi í tveimur hlutum. Það er annars vegar það að við getum ekki horft upp á að á næstu árum verði ríkissjóður að öðru leyti rekinn í halla. Við þurfum að sjá tekju- og gjaldaliðina ná saman að fráteknum fullfjármögnuðum innviðafjárfestingum.“

Það er ekki alltaf léttaverk að skilja hvað Bjarni á við, en hann sagði: „Ég held að við getum ekki boðað átak í fjárfestingum sem algerlega og í einu og öllu er háð því að við seljum á einhverjum tilteknum tíma. En ef við hins vegar förum þá leið að lýsa því yfir að við séum komin af stað í söluferli með bankann er ljóst að á komandi árum mun söluandvirðið skila sér til ríkisins og þannig getum við brúað bilið með því að fjármagna það sem þarf að hrinda í framkvæmd áður en að salan raungerist. Ég held að það verði í sjálfu sér ekki risastórt vandamál.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: