- Advertisement -

Eru útgerðarmenn hafnir yfir lög?

Við sjáum það í okkar störfum að mjög mörg fyrirtæki brjóta þessi lög.

Guðm Helgi Þórarinsson, formaður VM, skrifar:

Þessa dagana hrúgast inn fyrirspurnir og mál frá fiskiskipasjómönnum. Svo virðist vera að sumir útgerðarmenn séu alveg hættir að fara eftir nokkrum lögum. Þeir sem þekkja til vita að við sjómenn höfum oft sagt um útgerðarmenn að þeir hugsi „ég á þetta ég má þetta“ sama hvað. Ekki er hægt að una við þetta lengur, það er í raun þannig að það skiptir engu máli hvaða lög hafa verið sett, það er mjög líklegt að einhver útgerðarmaður eða útgerðarmenn eru að brjóta þau.

Ráðningarsamningar eru í lögum og kjarasamningum, þrátt fyrir það eru allt of margir vélstjórar án ráðningarsamninga og einnig eru mörg dæmi um það að vélstjórar til sjós eru til fjölda ára á tímabundnum samningum, gera útgerðir það til að rýra kjör sjómanna t.d vegna uppsagnarfrests og veikindarétt Einnig er dæmi um það að útgerðarmenn geri mjög stutta ráðningarsamninga til þess að koma í veg fyrir það að þurfa að greiða mönnum laun þegar leggja þarf skipinu vegna verkefnaskorts. Það er óþolandi staða fyrir fólk að búa ekki við öryggi, öryggi sem stéttarfélög hafa barist fyrir.

…víða fara engar samningaviðræður fram…

Í lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs segir að skila skal inn verðlagssamningum til stofnunnar, við sjáum það í okkar störfum að mjög mörg fyrirtæki brjóta þessi lög. Við trúum því að þessi lög og ef þeim er framfylgt mun það að einhverju leiti auka gegnsæi, það er þó þannig að það er ekki nóg að setja lögin, það þarf að framfylgja þeim og vera með viðurlög ef fólk brýtur þau. Við vitum það líka og heyrum að víða fara engar samningaviðræður fram eins og kjarasamningur segir til um, aðeins verðtöflur sendar um borð í skipin, og því verðin ákveðin einhliða af útgerðarmönnum.

Í gildi er reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á Íslenskum skipum. Reglugerð sem er þverbrotin aftur og aftur, oft af sömu útgerðarmönnum. Í 1. gr. segir um tilgang þess að setja þessa reglugerð. Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja öryggi og heilbrigði skipverja á íslenskum fiskiskipum.

 Með því að brjóta þessa reglugerð, ítrekað eru útgerðarmenn að segja að þeim sé sama um öryggi og heilbrigði sinna skipverja, eins og ég sagði hér fyrr í pistlinum þeir hugsa „ ég á þetta, ég má þetta“. Lítið sem ekkert eftirlit er svo með þessu.

Inn hafa komið mál að undanförnu þar sem menn eru skráðir sem vélstjórar um borð, þrátt fyrir að þeir hafi verið í landi, jafnvel að sóla sig erlendis eða legið inn á spítala. Mönnunarreglur þverbrotnar og svo virðist sem menn missi ekki einu sinni svefn yfir því að brjóta þessar reglur. Enda útgerðarmenn hafnir yfir lög og reglur.

…að útgerðarmenn verði látnir fara eftir lögum…

Kjarasamningur fiskimanna eru lausir og hafa verið í marga mánuði, við finnum fyrir vaxandi óþoli okkar manna að vera samningslausir og munum þrýsta á SFS að koma að samningaborðinu. Það þarf að klára kjarasamning sem tekur á lögbrotum útgerðarmanna og tryggir gegnsæi í verðlagsmálum, á meðan útgerðarmenn haga sér líkt og þeir gera núna, er ekkert traust á milli útgerðarmanna, sjómanna og stéttarfélaga þeirra. Ef útgerðarmenn vilja breyta þessu, mynda traust á milli aðila, þá þurfa þau að laga til heima hjá sér og hætta að brjóta lög. 

Stéttarfélögin verða að taka á þessum málum, þrýsta á stjórnvöld að útgerðarmenn verði látnir fara eftir lögum og reglum, þeir ráða allt of miklu í samfélaginu okkar, í boði máttlausra eftirlitsstofnana.

Ég er þess fullviss að við getum lagað þessi mál, en þá verðum við að standa saman, öll stéttarfélög sjómanna á komandi kjaravetri.