- Advertisement -

Fjármálaáætlun: Ríkisstjórnin býður skattabreytingar sem búið er að hafna

Ríkisstjórnin sendir þeim tóninn í gegnum fjármálaáætlunina.

Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, tók þátt í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Það blæs ekki byrlega í efnahagslífi okkar þessa dagana með óveðursskýjum yfir ferðaþjónustunni. Þar á ofan virðast kjaradeilur á vinnumarkaði frekar harðna en hitt. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er ekki að finna neitt útspil til að létta á stöðunni í kjaradeilunum, frekar þvert á móti,“ sagði Oddný.

Hún sagði ríkisstjórnina leggja fram skattatillögur sem verkalýðsfélögin hafi þegar hafnað og að stjórnin sendi ríkisstarfsmönnum með lausa samninga kaldar kveðjur.

„Samningar BSRB og BHM eru að losna þessa dagana. Þá bætast við kjarabaráttuna stóru kvennastéttirnar, þar á meðal hjúkrunarfræðingar sem eru nú að koma undan kjaradómi. Hæstvirt ríkisstjórn sendir þeim tóninn í gegnum fjármálaáætlunina með því að gera ráð fyrir því að ef að þær semja um laun sem gefa þeim meira en 3,8% launahækkun í aðra hönd, verði stofnanirnar sem þær starfa hjá að bera þann kostnað, eða verða ráðuneytin sem þær heyra undir að finna leiðir til að fjármagna launahækkanirnar.“

„Þetta er ekki hægt að skilja með öðrum hætti en að ef stóru kvennastéttirnar fá kjarabót umfram 0,5% plús verðbólgu munu skjólstæðingar þeirra fá lakari þjónustu eða að þær verða að taka á sig aukið álag. Hvert prósentustig í launahækkun kostar rúma 2 milljarða kr. Hefur verið reiknað út og kortlagt hvað slíkur niðurskurður myndi þýða, t.d. fyrir stofnanir í heilbrigðiskerfinu?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: