- Advertisement -

Flækjustigið allverulega hátt

„Í þessu tiltekna máli er flækjustigið allverulega hátt, það er augljóst. Það togast á bæði faglegir hagsmunir, einstaklingsbundnir og svo stofnanastrúktúrinn líka og óþarfi er að velta sér mikið upp úr því.“ Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, á Alþingi í gær, þegar hann svaraði þingkonunni Brynhildi Pétursdóttur Bjartri framtíð, um stöðu geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norður- og Austurlandi.

Brynhildur sagði vissulega að flækjustig í málinu sé mjög hátt og ekki sé ástæða til að gera lítið úr því, „…en mér finnst alvarlegt að ekki hafi verið fundin ásættanleg lausn, þó ekki væri nema til nokkurra ára.“

Brynhildur sagði erfitt að fá sérfræðinga út á land. „Þess vegna finnst mér mjög nauðsynlegt að allir kostir séu skoðaðir í þessu máli og við leggjum einhvern veginn ágreining til hliðar og finnum lausn. Ég held að það sé alveg ljóst í þessu tilfelli að sérsmíða þarf lausnina, það getur þurft að breyta reglugerðum, búa til nýjar reglugerðir eða hugsa út fyrir kassann, en þá gerum við það bara. Við berum ábyrgð á því að börn og unglingar fái þessa bráðnauðsynlegu þjónustu.“

Í svari ráðherra kom þetta fram meðal annars: „Varðandi þetta mál er alveg augljóst að vandamálið stafar fyrst og fremst af því að við erum með tiltölulega fáa einstaklinga á sviði barna- og unglingageðlækninga í landinu. Sennilega eru þeir um sex. Það er rétt hjá hv. þingmanni að eftirspurnin eftir þessari þjónustu er til muna meiri en það fagmenntaða fólk sem við höfum á þessu sviði annar og erfiðleikar eru við að ná því til starfa utan höfuðborgarsvæðisins, nema ef vera skyldi að það ágæta fólk sæki þá til vinnu í lausum stundum erlendis, sem ég veit dæmi um.

Þingkona var ekki fullsátt: „Ég lýsi því yfir vonbrigðum með hvað hægt hefur gengið í þessu máli og ég óttast um framtíðina. Ef foreldrar fá ekki umrædda þjónustu fyrir börn sín flytja þeir þangað sem þjónustuna er að finna, það er bara þannig.“