- Advertisement -

Forsætisráðherra bar af sér sakir

„Nýlega óskaði ég eftir því að hæstvirtur forsætisráðherra kæmi fyrir fjárlaganefnd til að svara þar spurningum nefndarinnar, í grunninn um það hvort forsendur fjárlaga standist, hvort ríkisstjórnin ætli sér að halda áfram sölu á Íslandsbanka. En við vitum öll að ríkisstjórnin hefur ekki talað einu máli um stöðu mála eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar birtist. Undir eru 76 milljarðar samkvæmt frumvarpinu. Nú virðist koma á daginn að það getur forsætisráðherra ekki gert því að — ég átta mig ekki almennilega á því; hvort fjármál ríkisins eigi ekki undir hana, hagstjórn ríkisins eigi ekki undir hana þrátt fyrir að hún sitji í ráðherranefnd um efnahagsmál. Við vitum öll að pólitískt snýst þetta mál um afstöðu Vinstri grænna til framhaldsins. En forsætisráðherra mun ekki koma fyrir fjárlaganefnd og eftir stendur þá sú spurning: Er hér að myndast 76 milljarða gat í fjárlögum? Ég óska liðsinnis forseta við að upplýsa um þetta mál,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.

„Það er auðvitað svolítið þreytandi að ráðherrar fáist ekki til að mæta fyrir þingnefndir til að ræða við þær um mikilvæg mál sem augljóslega eru á sameiginlegri ábyrgð, sér í lagi ráðherra í ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég vildi rifja upp að hérna fyrir sumarfrí óskaði háttvirtur þingmaður Jóhann Páll Jóhannsson eftir því að fá alla ráðherra í ráðherranefnd um efnahagsmál á fund efnahags- og viðskiptanefndar til að ræða margvíslegar hugmyndir fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagslífið en fékk ekki. Við óskuðum eftir úrskurði forseta um þá ákvörðun og ég veit ekki betur en að við bíðum hans enn. Ég velti fyrir mér hversu lengi hæstv. forseti ætlar að draga lappirnar í þessu máli,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati.

„Ég hlýt að koma hér upp og fá að bera af mér sakir því að ég hef ekki fengið neina ósk um að mæta á fund fjárlaganefndar. Þannig að ég hef ekki hafnað neinu fundarboði eins og háttvirtir þingmenn saka mig hér um. Háttvirtir fjárlaganefnd verður að gera það upp við sig hvort hún vill óska eftir minni nærveru (Hanna Katrín kallar fram í: „Það hefur þegar verið gert og engu verið svarað.“) Ja, ég hef ekki fengið neitt boð þannig að þá þarf hv. fjárlaganefnd að ræða málin í sínum ranni.“

„Ég lagði fram þessa ósk í fjárlaganefnd. Frá þessari ósk greindi ég líka hér inni í þingsal. Frá henni hefur verið greint í fjölmiðlum landsins. Það er með nokkrum ólíkindum að hún hafi farið fram hjá þingliðum öllum í Vinstri grænum. Tveir formenn fjárlaganefndar starfandi í dag, annars vegar háttvirtur þingmaður Haraldur Benediktsson, hvöttu mig til að fara með þetta samtal í þingsal ef ég væri óánægð með niðurstöðuna. Það hefur háttvirtur þingmaður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir líka gert,“ sagði Þorbjörg Sigríður.

„Ég er einfaldlega að fara að þeirra ráðum. Ég óska eftir því að forsætisráðherra komi fyrir nefndina og upplýsi um það hvort það sé að verða til 76 milljarða gat í fjárlögum vegna afstöðu Vinstri grænna til áframhaldandi bankasölu. Kannski væri lag fyrst hæstvirtan forsætisráðherra er hér í húsi og inni í sal að hún komi upp í pontu og upplýsi um sína afstöðu til málsins. Við getum þá í fjárlaganefndinni haldið áfram með vinnuna í fjárlagagerðinni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: