- Advertisement -

Forsætisráðherra tapaði trúverðugleikanum á mettíma

Umfjöllun „Forsætisráðherra Íslands hefur tapað trúverðugleikanum á mettíma og orðheppni hans fer minnkandi. Það er varla sú ræða sem hann heldur sem ekki þarf að leiðrétta eða endurtúlka að flutningi loknum. Það er ekki öllum gefið að hafa trúverðugleika og halda góðar ræður, svo eftir sé tekið og þannig að skilaboðin séu skýr og til eftirbreytni. Góðar ræður geta skapað andrúmsloft breytinga, tækifæri og leiðtoga.“

Þannig hefst grein í Vísbendingu, blaði sem Benedikt Jóhannesson ritstýrir og fyrirtæki hans gefur út.

Fjallað er um ræður, uppbyggingu þeirra, tilgang og hvað eina.

Sigmundur Davíð er harðlega gagnrýndur í greininni, samanber þetta:

„Þegar forsætisráðherra Íslands hefur að því virðist tapað bæði trúverðugleikanum sem felst í krafti embættisins og sannfæringarkraftinum, getur í raun ekki sannfært fólk um eitt eða neitt vegna þess að hann höfðar hvorki til tilfinninga lengur né byggir mál sitt á rökum, þá er það ekki lengur sérvandamál ráðherrans eða flokks hans heldur vandamál þjóðarinnar allrar. Þjálfun myndi hjálpa en hún leysir ekki vandamálið úr því sem komið er. Það myndi hins vegar bæta úr skák ef tilgangurinn væri skarpari og þær leiðir sem notaðar væru til þess að sannfæra fólk einskorðuðust ekki við lítinn heimakór og hefðu lítið sem ekkert gildi fyrir stærstan hluta almennings.

Forsætisráðherra hefur það stóra verkefni að geta höfðað til fleiri en fámenns hagsmunahóps eða þeirra kjósenda sem kusu hann. Sem leiðtogi verður forsætisráðherra að kveða við tón sem hefur samhljóm með miklu stærri hópi, helst þjóðinni allri. Til þess að það sé mögulegt verður hann að tala með öðrum orðum en hingað til.”