- Advertisement -

Frelsisbarátta svartra færði okkur bestu greinunguna á samfélaginu

Verkalýðshreyfingin og þeir stjórnmálaflokkar sem hún hafði getið af sér runnu saman við valdastéttina.

Gunnar Smári skrifar:

Frelsisbarátta svartra í Bandaríkjunum hefur fært okkur betri greiningu á samfélagi og baráttuaðferðum en flest annað síðustu rúmu hálfa öldina, mögulega kemst kvennabaráttan með tærnar þar sem frelsisbarátta svartra hefur hælanna. Verkalýðsbaráttan gat af sér stórkostlega greining á samfélagi og baráttu hundrað árin þar á undan, einkum fyrri hluta þess tíma. Ástæðan er auðvitað sú að sýnin er glöggust þegar sjónarhóllinn er meðal hinna kúguðustu, þekkingin er víðfeðmust þegar öll svið samfélagsins eru undir og baráttan skýrust þegar hún er upp á líf og dauða.
Stofnana- og klíkuvæðing verkalýðsbaráttunnar dró mátt og skerpu úr hreyfingu og flokkum. Sjónarhóllinn fór frá þeim kúguðustu að atvinnustjórnmálamönnum, grunnurinn var ekki lífsbarátta hinna veikast stæðu og baráttan var ekki lengur upp á líf og dauða; forystufólkið var í engum háska. Verkalýðshreyfingin og þeir stjórnmálaflokkar sem hún hafði getið af sér runnu saman við valdastéttina, elítuna sem í reynd þjónaði fyrst og síðast hagsmunum auðvaldsins, heimsmynd þess, samfélagssýn og manngildishugmyndum.

Kvennabaráttan á köflum, þegar millistéttarfemínisminn talar ekki yfir kúguðustu konurnar, þær fátækustu og valdaminnstu; og frelsisbarátta svartra lengst af, þegar sú barátta persónugervist ekki í frama einstakra íþrótta- eða skemmtikrafta, stjórnmálamanna eða hermanna; hafa viðhaldið baráttukrafti, greiningu og réttu sjónarhorni á tímum þegar verkalýðshreyfingin hefur verið ófær um þetta.

Þú gætir haft áhuga á þessum

TIL AÐ ENDURNÝJA SIG, ÞARF VERKALÝÐSBARÁTTAN…

Og auðvitað gæti ég nefnt baráttu samkynhneigðra og síðar hinsegin fólks, baráttu fatlaðra og öryrkja, baráttu frumbyggja víða um heim og margt annað, en vil að þessu sinni leggja höfuðáherslu á þessar tvær stóru kvíslar mannréttindabaráttunnar síðustu rúmu hálfa öldina, baráttu sem hin stofnanavædda verkalýðshreyfing náði ekki að verða hluti af, beit í raun frá sér. Til að endurnýja sig, þarf verkalýðsbaráttan því að sækja til þessara kvísla greiningu á samfélagi og baráttunni í frelsisbaráttu svartra, og ekki síst læra hvar sjónarhóllinn á að vera. Það er ef verkalýðshreyfingin vill verða meginelfur samfélagsbreytinga á næstu árum og áratugum.
Mikilvægi sjónarhóls sést vel síðustu daga þegar svartir í Bandaríkjunum fylkja baráttu sinni utan um morðið á George Floyd, atvinnulausum fyrrum fanga sem keypti sér sígarettur fyrir falsaðan tuttugu dollara seðil. Hreyfing sem getur barist frá stöðu hins forsmáðasta er raunveruleg mannúðarhreyfing, og hún hefur afl til að breyta heiminum. Hreyfing sem felur hin verst settu, sýnir aðeins fulltrúa sem auðvaldsmiðlunum finnast stofuhæfir og helst aldrei neina úr hópnum nema tamda forystuna; sú hreyfing getur ekki verið mannúðarhreyfing, og getur heldur engu breytt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: