- Advertisement -

Getum sópað ömurðinni burt

…hefur verið þröngvað upp á okkur; rasismanum, stéttaskiptingunni, misskiptingunni, kvenfyrirlitningunni, hinseginhatrinu, náttúruníðinu, hernaðarhyggjunni, ofbeldishyggjunni.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Það er kannski skrítið og kannski asnalegt og kannski barnalegt en akkúrat núna líður mér eins og við, fólkið, allskonar og hinsegin, héðan og þaðan, getum í krafti samstöðunnar og samhygðarinnar sópað allri ömurðinni sem hefur verið þröngvað upp á okkur; rasismanum, stéttaskiptingunni, misskiptingunni, kvenfyrirlitningunni, hinseginhatrinu, náttúruníðinu, hernaðarhyggjunni, ofbeldishyggjunni; að við getum sópað þessu öllu út á hafsauga, nei ekki hafsauga, hvers á hafið að gjalda, nei, út í tómið þar sem þessar manngerðu hörmungar, þessi upplognu „náttúrulögmál“ munu þeytast í kringum hvort annað þangað til þau tætast í sundur og feykjast í burtu og koma aldrei aftur. Ég veit ekki af hverju mér líður svona en þegar ég hugsa um allt fólkið sem ég hef kynnst, hér og þar, fólkið alls staðar að úr veröldinni, þegar ég hugsa um allar konurnar sem ég hef unnið með í gegnum tíðina, frá Kúbu, Póllandi, Úkraínu, Spáni, Ameríku, Litháen, Lettlandi og svo framvegis, þegar ég hugsa um vinnuaflið, alþjóðlegt, saman, hlið við hlið, þá trúi ég því af öllu hjarta að við munum geta afrekað það sem Arundhati Roy segir að við verðum að gera; að komast í gegnum gáttina sem nú stendur opin:


„…hlið á milli einnar veraldar og þeirrar næstu. Við getum valið að ganga þar í gegn með hræ fordóma okkar og haturs í eftirdragi, ágirnd okkar, gagnabanka og dauðar hugmyndir, okkar lífvana árfarvegir og reyk-fylltu himnar í bakgrunni. Eða við getum gengið í gegn létt á fæti, með lítinn farangur, tilbúin til að ímynda okkur nýjan heim. Og tilbúin til að berjast fyrir honum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við erum byrjuð að berjast.

Ég trúi því vegna þess að fólk vill lifa í sátt og samlyndi hvort með öðru, í samvinnu og vinsemd, samhjálp og skilningi á því að ekki er hægt að hugsa sér neitt verra eða heimskulegra en að gera mannlega tilveru erfiðari en hún þarf að vera. Að lifa er að sætta sig við það að vera brothætt, smá, dauðleg en það er líka að þroskast, vaxa, upplifa, hugsa og skilja. Skilja að við eigum öll bara eitt líf og það eru mannréttindi okkar allra að fá að lifa því laus við kúgun, ofbeldi og arðrán. Við erum byrjuð að berjast, saman, og við munum ekki gefast upp.

„Önnur veröld er ekki aðeins möguleg, hún er á leiðinni. Kannski verða mörg okkar ekki hér til að taka á móti henni, en á kyrrlátum degi, ef ég legg við eyrun, heyri ég andardráttinn hennar“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: