- Advertisement -

Fréttablaðið mun hætta útgáfu

Þá fór Sjálfstæðisflokkurinn að skreppa saman, tapaði miklu í þingkosningum 2003 og fékk lélega kosningu í borginni 2002 og 2006.

Gunnar Smári skrifar:

Fríblöðin voru tímabundið viðbragð gagnvart veikari stöðu dagblaða á auglýsingamarkaði, þau gátu frestað hruni dagblaðanna en ekki komið í veg fyrir það. Mér sýnist á þessum tölum um lestur að Fréttablaðið sé komið yfir point-of-no-return. Það er ekki hægt að prenta, dreifa og fylla blaðsíðurnar á efni með þeim tekjum sem má hafa af auglýsingamarkaði á grunni svona lesturs. Þannig er það bara.

Á Fréttatímanum reyndum við að halda úti blaði á bestu auglýsingadögunum; fimmtudegi, föstudegi og laugardegi en þrátt fyrir góðan lestur skorti okkur fé til að ná í höfn. Reynslan af útgáfu Fréttatímanum árin á undan hafði sýnt að útgáfa einn dag í viku bar sig ekki heldur, auglýsingar á einum degi stóðu ekki undir föstum kostnaði og margt í starfinu nýttist of illa. Fréttablaðið er komið niður í fimm daga, og er örugglega enn rekið með góðu tapi þriðjudaga og miðvikudaga.

Morgunblaðið hefur verið rekið með miklu tapi.

Morgunblaðið hefur verið rekið með miklu tapi síðan við á Fréttablaðinu felldum Moggann, 2003/04. Þegar Mogginn missti miðlæga stöðu sína á auglýsingamarkaði missti hann flugið og tök sín á umræðunni. Þá fór Sjálfstæðisflokkurinn að skreppa saman, tapaði miklu í þingkosningum 2003 og fékk lélega kosningu í borginni 2002 og 2006. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta hafi gerst vegna einhvers sem stóð í Fréttablaðinu, heldur vegna þess að drottnandi staða Sjálfstæðisflokksins í umræðunni var fallinn og fleiri sjónarmið komust að. Miðlæg staða Moggans í fjölmiðlum var meinið þá, nú er meinið að miðlarnir standa ekki undir sér og eru háðir matargjöfum frá auðvaldinu.

En það var góð staða fyrir fríblað að koma inn í þessa Moggaveröld, að vera einskonar alþýðublað á móti elítu-Mogga. Nú er staða Fréttablaðsins eiginlega öfug, blaðið tekur afstöðu með fjármagnseigendum og allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna gegn almenningi og baráttusamtökum þeirra, er orðið enn ein röddin í þeim hvimleiða kór. Businessmódelið er að bresta, auglýsingasalan stendur ekki undir prentun, dreifingu og því að fylla síðurnar með boðlegu efni. Á næstu mánuðum verða fleiri útgáfudagar felldir niður, líklega endar Fréttablaðið sem vikurit innan árs og hættir svo útgáfu. Og ég efast um að nokkur sakni þess.

Fyrir röð tilviljana varð blaðamennskan lífsstarf mitt og ástríða. Lengi vel fannst mér fátt tilkomumeira en prentvél að snúa sér í gang til að prenta vel gert blað, fullt af lífi, fróðleik, fréttum og skemmtilegheitum. Mér fannst lykt af prentsvertu góð. Ég lærði að lesa með því að lesa Moggann á hvolfi (ég var yngstur á heimilinu og fékk blaðið seinastur, þurfti að lesa það öfugt yfir borðið til að fá fréttirnar fyrr). Ég hef skrifað í blöð og ritstýrt þeim, hannað þau og brotið um, selt auglýsingar í þau og borið þau út, gert allt sem tengist dagblaðaútgáfu með gleði og áhuga. Samt er það svo ég hef ekki fengið blöðin á heimilið síðan við fluttum heim frá Frakklandi fyrir mörgum árum. Það að detta út í eitt ár var nóg, ég vandi mig af dagblaðalestri, hætti að horfa á hvert blað sem einskonar dómkirkju, og les nú fréttir og fróðleik í stykkjavís á vefnum. Fyrirbrigðið dagblað er ekki til fyrir mér.

Auðvitað er ekki hægt að draga of miklar ályktanir af einum manni, en það er samt augljóst að blöðin eru að deyja, þau munu liggja á líknardeild meðan einhver er til í að borga undir þau, en svo verða blöðin jörðuð í kyrrþey. Og enginn mun sakna þeirra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: