- Advertisement -

Hafa hagnast um 800 milljarða frá hruni?

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Ég verð að spyrja seðlabankastjóra…

Ég verð að lýsa furðu minni á þessari aftöðu hjá Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra en hann segir ekki sjá tilgang með því að banna verðtryggingu á neytendalánum til heimilanna. Svo skítur hann á verðalýðshreyfinguna og segir að hún ætti frekar að leggja lóð á vogarskálarnar við að tryggja stöðugt verðlag.

Ég verð að spyrja seðlabankastjóra hvort hann sé virkilega að halda því fram að það hafi verið íslensku launafólki að hér varð bankahrun sem gerði það að verkum að verðbólgan fór uppí 20% nánast á einni nóttu. Afleiðingarnar voru að verðtryggðarskuldir heimilanna stökkbreyttust um 400 milljarða, í dag nemur þessi upphæð núvirt rúmum 600 milljörðum. Það voru þúsundir fjölskyldna sem misstu heimili sín með skelfilegum afleiðingum.

Rétt að minna Seðlabankastjóra á að sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar sem skilaði skýrslu árið 2014 komast að þeirri niðurstöðu að 40 ára jafngreiðslulán væru baneitraður kokteill sem banna þyrfti tafarlaust enda gera slík lán ekkert annað en að hækka fyrstu 20 til 25 árin frá því þegar þau eru tekin.

Ég spyr seðlabankastjóra eftirfarandi spurninga:

• Finnst þér eðlilegt að verðtryggð lán geri ekkert annað en að hækka fyrstu 20 til 25 árin eftir að þau eru tekin?

• Er það launafólki um að kenna að gengi krónunnar á það til að sveiplast upp og niður?

• Er það launafólki um að kenna að hér ríkir framboðs- og lóðaskortur sem leiðir til þess að fasteignaverð hækkar sem hefur áhrif til hækkunar á neysluvísitölunni?

• Finnst þér eðlilegt að allri ábyrgðinni sé varpað á lántakan með veitingu á verðtryggðum lánum.

• Af hverju eru aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við ekki að veita verðtryggð lán til heimila ef þetta eru svona skynsöm lán?

• Er eðlilegt að verðtryggingarjöfnuður banka sé með þeim hætti að þeir hagnist á verðbólgu eins og fram kom í áliti sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar?

• Er það eðlilegt að skatta og tollahækkanir stjórnvalda leiði til þess að verðtryggðarskuldir heimilanna hækki?

• Er eðlilegt að stríðsátök í miðausturlöndum leiði til þess að skuldir heimilanna hækki vegna hækkunar á olíuverði?

• Af hverju var verðtryggingu á launum afnumin árið 1983 en ekki á fjárskuldbindingum heimilanna?

• Finnst þér eðlilegt að viðskiptabankarnir þrír séu búnir að skila um 800 milljörðum í hagnað frá hruni?

Ég gæti svo sem haldið áfram með spurningar en mér finnst þetta eilífa dekur stjórnvalda og seðlabankans við fjármálaelítuna orðið óþolandi, enda er dekur allt á kostnað almennings og heimilanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: