- Advertisement -

Hvað var verið að fela?

Þórður Snær Júlíusson skrifaði þessa grein.

Á Íslandi eiga nokkrar fjölskyldur mörg hundruð milljarða króna auð sem þær hafa eignast með nýtingu á þjóðareign. Þann auð hafa þær nýtt til að kaupa sig inn í óskyldan rekstur í viðskiptalífinu. Fyrir liggja upplýsingar um sterka stöðu þeirra í smásölu, fjölmiðlum, fasteignaviðskiptum, heildsölu, fjármálakerfinu og jafnvel í sósugerð. Heildarmyndin um ítök stærstu eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna í íslensku samfélagi liggur þó ekki fyrir og fyrri tilraunir til að varpa ljósi á hana hafa mætt mótstöðu fyrri stjórnvalda. Nú á loksins að birta þessa mynd enda engin þörf á leynd ef enginn hefur neitt að fela.

Í vikunni samþykkti Alþingi beiðni Dags B. Eggertssonar og tólf annarra þingmanna um að kortleggja eignarhald 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og eigenda þeirra í óskyldum rekstri á Íslandi. Þetta var í annað sinn sem Dagur er fyrsti flutningsmaður hóps þingmanna sem lagði fram beiðnina en ekki tókst að vinna skýrsluna á síðasta þingi.

Áður hafði Hanna Katrín Friðriksdóttir, þá þingmaður en nú ráðherra, verið fyrsti flutningsmaður af 20 sem lögðu fram sambærilega skýrslubeiðni árið 2020 sem þáverandi sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók átta mánuði í að svara. Eða svara ekki.

…sýndu hvorki krosseignartengsl né ítök…

Þingmennirnir vildu að ráðherrann myndi láta taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu tíu árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni var sérstaklega farið fram á að í skýrslunni yrðu raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrðu til umfjöllunar tilgreindir og gerð samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.

Skýrslan sem var birt svaraði ekki að neinu leyti því sem spurt var um og bar fyrir sig alls konar ómöguleika sem síðar hefur verið sýnt fram á að stóðust enga skoðun. Þær tölur sem settar voru fram í skýrslunni sýndu hvorki krosseignartengsl né ítök útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi.

Skýrsluhöfundar héldu því meðal annars fram að persónuverndarlög hömluðu því að hægt væri að birta upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækjanna 20. Fyrir vikið var ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geirum í skýrslu sem átti fyrst og síðast að sýna slíkt yfirlit. Persónuvernd gerði alvarlegar athugasemdir við þessa túlkun og sagði skýrsluna byggja á rangfærslum.

Þeir sem ráðherrann fékk til að gera skýrsluna vissu auðvitað að upplýsingarnar sem settar voru fram í henni væru þvæla. Á einum stað sögðu þeir enda beint út að það verði að hafa „fyrirvara um ályktanir sem kunna að verða dregnar af þeim tölulegu gögnum, um bókfært virði fjárfestinga, sem skýrslan byggir á.“

Með öðrum orðum: Það var ekkert að marka niðurstöður þessarar skýrslu.

Hanna Katrín sagði í viðtali þegar skýrslan birtist að hún vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta.

Hanna Katrín sagði í viðtali þegar skýrslan birtist að hún vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar […] Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“

Fleiri skref hafa verið stigin á þessu ári til að varpa ljósi á stöðu mála í þessum gríðarlega mikilvæga geira á Íslandi, sem stendur undir 18 prósent af útflutningi þjóðarinnar. Á síðasta þingi var til að mynda lagt fram prýðilegt frumvarp sem var ætlað að auka gagnsæi í sjávarútvegi, aðlaga leikreglurnar sem tíðkast hafa í sjávarútvegi við aðrar og skilgreina systkini og sambúðarfólk sem tengda aðila. Það frumvarp hlaut ekki afgreiðslu vegna málþófs, tafarleikja og pólitískra klækja minnihlutans á Alþingi. Fyrirstöðu sem lagt var í til að reyna að koma í veg fyrir réttláta leiðréttingu veiðigjalda.

Vonandi verður það frumvarp lagt aftur fram sem fyrst, enda vita allir með réttu ráði að systkini eru tengd og eiga að vera skilgreind þannig samkvæmt lögum.

Framhald síðar í dag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: