- Advertisement -

Kynkaldar risaeðlur og loftsteinn

- stórar skepnur deyja frekar út

Fyrir langa löngu eigruðu risavaxin pokadýr um ástralskar lendur. Á svipuðum tíma réðu kafloðnir mammútar ríkjum á ströndum Kaliforníu. Milljónum ára áður spígsporuðu risaeðlurnar óáreittar um jörðina. Þessar skepnur eru allar löngu horfnar sjónum, þær dóu út fyrir milljónum ára. Það merkilega er að þær skepnur sem deyja út eru oftar en ekki mjög stórar og þau dýr sem fylltu skarð þeirra voru mun minni í sniðum.

Loftsteinn gerir óskunda

Vísindamenn eru almennt sammála um það að stór loftsteinn hafi skollið á Mexíkóflóa fyrir u.þ.b. 65 milljónum ára. Þessi loftsteinn er talinn hafa hrundið af stað keðju atburða sem leiddu til þess að risaeðlur dóu drottni sínum. Hvort sem loftsteininum umrædda er um að kenna eða ekki þá sýna steingervingar að á þessum tíma stráféllu risaeðlur og önnur risavaxin dýr víða um heim. Hins vegar virðast fuglar og önnur minni spendýr hafa haft meiri burði til að lifa þessa tíma af. Þessi staðreynd hefur valdið vísindamönnum víða um heim heilabrotum árum saman. Ljóst er að stóru dýrin áttu erfitt með að fela sig og finna sér skjól þegar hættur steðjuðu að líkt og litlu dýrin gátu gert. Einnig er möguleiki að plöntur sem voru aðaluppistaðan í fæðu risaeðlanna hafi horfið af sjónarsviðinu og þær því átt erfitt með að afla sér fæðu. Vísindamenn hafa líka komið fram með þá tilgátu að sökum allra umbreytinganna hafi risaeðlurnar verið svo þjáðar af streitu að þær hafi verið kynferðislega áhugalausar og átt erfitt með að fjölga sér. Ef loftslagsbrey tingar hafa valdið því að öll yngri dýrin féllu í valinn þá segir það sig sjálft að það hefur þurft til mikla endurnýjun.

Verða seint kynþroska

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auk mirtni spendýra tókst skjaldbökum og krókódílum að komast vel frá þessum erfiðu tímum. Þessi dýr skilja eftir sig ótal egg og þau njóta einnig þeirra forréttinda að geta falið sig undir vatnsyfirborði sem kemur sér óneitanlega vel við ýmsar aðstæður.

Stór spendýr verða seint kynþroska og dánartíðni þeirra fyrir kynþroskaaldur er nokkuð há. Þessi staðreynd stuðlar augljóslega að útrýmingu og kann hún að hafa haft áhrif á dauða mammútana. Leifar þessara stórvöxnu spendýra hafa fundist í jarðlögum allra meginlandanna nema í Ástralíu og Suður-Ameríku. Leifarnar hafa einungis fundist í jarðlögum frá Pleistósen-tímabilinu sem nær yfir tímann frá því fyrir sex miljónum ára fram að lokum ísaldar, fyrir 10.000 árum. Mögulegt er að ofveiði hafi haft áhrif á dauða þeirra.

Maðurinn er ógn nútímans

Dýrategundir deyja reglulega út á jörðinni. Síðustu 250 milljón árin má segja að stór dýrategund hafi dáið út á 26 milljón ára fresti og er síst útlit fyrir að sú tíðni lækki í framtíðinni. Maðurinn er líklega ógn nútímans þegar kemur að útrýmingu dýrategunda og erum við að hluta til ábyrg fyrir dauða margra tegunda. Nærtækasta dæmið fyrir okkur íslendinga er líklega geirfuglinn góði en talið er að geirfuglar hafi verið margar milljónir áður en menn fóru að veiða hann í stórum stíl. Upp úr 1800 fór að halla undan fæti hjá geirfuglinum sökum ofveiði. Geirfuglinn var veiddur kjötsins og fjaðranna sem voru notaðar í fatnað. Margar hvalategundir hafa látið á sjá af sömu orsökum og stofn afr- íska fílsins hefur minnkað til muna síðstu 30 árin enda tennur hans og bein eftirsótt vara. Því er ljóst að maðurinn þarfi að hemja græðgi sína og fara vel að hinum stóru skepnum ef þær eiga að deila með okkur jörðinni í framtíðinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: