- Advertisement -

Nígería er alvöru HM lið

Gunnar Smári Egilsson.

Nígería er alvöru HM lið, náði fyrst inn í lokakeppnina í Bandaríkjunum 1994 og hefur verið með síðan ef undan er skilin keppnin í Þýskalandi 2006.

Nígería byrjaði með stæl og vann riðilinn sinn í Bandaríkjunum, burstaði Búlgaríu 3:0 í fyrsta leik, tapaði svo fyrir Argentínu 1:2 í síðasta landsleik Maradona og vann svo Grikki í lokaleik riðilsins 2:0. Í sextán liða úrslitunum töpuðu Nígeríumenn fyrir Roberto Baggio, sem tryggði Ítalíu fyrst framlengingu undir lok leiksins og svo sigur 2:1.

Nígería endurtók leikinn í Frakklandi 1998 og vann sinn riðil. Byrjuðu á leggja Spánverja í svakalegum leik, 3:2. Næst unnu Nígeríumenn Búlgaríu í annað sinn á HM, nú 1:0. Þeir töpuðu hins vegar í síðasta leiknum í riðlakeppninni fyrir Panama 1:3.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessar tvær keppnir, HM 1994 og 1998 spanna gullöld Nígeríu. Þarna voru í liðinu leikmenn eins og Jay-Jay Okocha, Rashidi Yekini, Sunday Oliseh, Finidi George, Daniel Amokachi, Taribo West og Nwankwo Kanu.

En í 16. Liða úrslitunum 1998 mættu Nígeríumenn gullaldarliði Danmerkur (Schmeichel, Laudrup-bræður & co) og töpuðu 1:4.

2002 í Kóreu og Japan lenti Nígeríumenn í dauðariðli og töpuðu fyrir Argentínu 0:1 og Svíþjóð 1:2 og gerðu 0:0 jafntefli við Englendinga. Þeir komust ekki upp úr riðlinum. Ekki frekar en Argentína, sem fór heim eftir riðlakeppni í fyrsta sinn frá 1962. Það eru vissar líkur á að það gerist nú í þriðja sinn, 2018.

2006 missti Nígería af sæti á HM, fékk jafn mörg stig og Angóla í sínum riðli í undankeppninni í Afríku, var með mun betri markatölu, en tapaði vegna innri viðureigna, hafði tapað og gert jafntefli við Angóla.

Nígería mætti aftur 2010, nú til Suður-Afríku, sem átti að verða keppni Afríkuþjóðanna, en varð þeim mikil vonbrigði. Sérstaklega Nígeríu sem tapaði fyrir Argentínu 0:1 og Grikklandi 1:2, gerði 2:2 jafntefli við Suður-Kóreu og endaði neðst í sínum riðli.

Nígería lenti enn einu sinni með Argentínu og riðli í Brasilíu 2014 (með Rússlandi eru þetta fimm skipti af sex, hreint ótrúlegt) og tapaði 2:3 í þetta sinn, gerði 0:0 jafntefli við Íran en vann Bosníu hersegóvínu 1:0. Þetta dugði fyrir öðru sætinu í riðlinum og leik í sextán liða úrslitum þar sem Frakkar unnu 2:0.

Fáir úr liðinu frá Brasilíu komu með til Rússlands; John Obi Mikel, Victor Moses, Ahmed Musa og Kenneth Omeruo. Aðrir leikmenn eru nýir og flestir yngri. Þetta lið á að vera enn nýtt gullaldarlið, en alla þessa öld hafa Nígeríumenn verið að bíða eftir nýju gullaldarliði. Allt segir að Nígería eigi að verða stórveldi í fótbolta. Þetta er risaþjóð (186 milljón manns) sem ætti að geta framleitt fótboltamenn á færibandi, nógu margir strákar í Nígeríu vilja sparka sig upp úr fátækt og bjargarleysi. En það hefur tekið langan tíma að byggja upp umgjörð um landsliðið og fótboltann innanlands. Frá því að Nígería komst fyrst á HM hafa 28 landsliðsþjálfara verið með liðið, að meðaltali hver minna en eitt ár, sumir reyndar tekið við liðinu oftar en einu sinni. Núverandi þjálfari, Gernot Rohr, var ráðinn 2016, einn af þessum evrópsku þjálfurum sem hefur nánast sérhæft sig í að þvælast á milli landsliða í Afríku. Rohr er áttundi þjálfarinn frá HM 2014 í Brasilíu.

Nígería varð efst í sínum riðli í Afríku-undankeppninni, fyrir ofan Zambíu, Kamerún og Alsír. Það er nú 48. sæti á lista FIFA, á milli Ghana og Búlgaríu. Í stigum talið er álíka langt frá Íslandi að Nígeríu og frá Frakklandi og Sviss að Íslandi. Ef fólk trúir FIFA-listanum ætti Ísland að vinna Nígeríu aðeins frekar en að Frakkar ættu að vinna Ísland. En þannig er fótboltinn ekki. Það er aldrei hægt að ganga að neinu sem vísu þegar inn á völlinn er komið.

Ég ætla ekki að spá fyrir um hvernig leikurinn á morgun fer. En ég ætla að spá því að Nígería vinni loks Argentínu á HM á þriðjudaginn næsta. Hingað til hafa Argentínumenn unnið fjórum sinnum með eins marks mun, en nú er komið að Nígeríu.

-gse


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: