- Advertisement -

Það er Luis Suarez að kenna

Gunnar Smári skrifar:

Þessi ungi maður frá Ghana kann að hafa gaman af lífinu.

Ég held ekki að það sé neinn enn í liði Ghana sem spilaði þennan leik á HM 2010 en líklega þrá þeir samt heitt að hefna fyrir þetta rán á morgun, þegar Luis Suarez varði með hendi á marklínu á síðasta augnabliki leiksins. Og Asamoah Gyan skaut í slánna í vítaspyrnunni og leikurinn fór í vítaspyrnukeppni sem Úrúgvæar unnu. Og fóru síðan í undanúrslit gegn Hollandi sem Ghana hefði átt að gera, eina Afríkuliðið sem komst upp úr riðlunum þegar HM var haldið í Suður-Afríku. Aldrei hefur lið verið rænt jafn miklu á jafn óheiðarlegan hátt. Eftir að Maradona hafði skorað með hendi gegn Englendingum 1986 bætti hann fyrir það með því að skora mark aldarinnar síðar í leiknum. Suarez bætti ekki fyrir neitt, slóraði á leiðina í sturtuna og fagnaði svo á hliðarlínunni þegar boltinn fór í slánna, eins og hann hefði unnið leikinn. Sem hann vissulega gerði.

Í hópi Úrúgvæ eru auk Suarez þeir Edinson Calvani og Fernando Muslera sem spiluðu leikinn fyrir tólf árum rúmum, Muslera varði tvisvar í vítaspyrnukeppninni. Diego Godin fyrirliði var á bekknum 2010 og líka Martín Cáceres. Þeir muna allir þennan leik, Úrúgvæ hafði ekki komist í undanúrslit síðan í Mexíkó 1970. Þeim var fagnað sem þjóðhetjum þegar þeir sneru heim. Ekkert lið frá Afríku hefur komist í undanúrslit á HM. Og það er Luis Suarez að kenna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: