- Advertisement -

Páll skipstjóri líkir ósvífnum blaðamönnum við glæpamenn: „Mér líður stundum eins og ég hafi óvart lent í lélegri bíómynd“

Páll Steingrímsson skipstjóri, einn af hinum frægu skæruliðum Samherja, ritar harðorðan pistil á Facebook-síðu sinni í dag. Þar líkir hann óvífnum blaðamönnum hér á landi við glæpamenn sem hann vilji fá að mæta í réttarsal. Stundum finnst Páli eins og hann hafi óvart lent´i lélegri bíómynd.

Eins og frægt er orðið hafa nokkrir íslenskir blaðamenn réttarstöðu sakbornins í rannsókn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra á stuldi á síma skipstjórans en blaðamönnunum er gefið að sök að hafa afritað og jafnvel áframsent gögn úr símanum. Í símanum reyndust vera gögn af kynferðislegum toga, meðal annars myndbönd af Páli skipstjóra.

„Ég er bara venjulegur maður sem hef orðið að þola harða atlögu að heilsu minni og æru af óvenju ósvífnum fjölmiðlamönnum sem ég vil meina að starfi eins og glæpamenn. Fólki af þessu sauðahúsi vil ég helst mæta fyrir dómstólum í von um að ná fram því réttlæti að fá að njóta einkalífs sem allir borgara landsins eiga rétt á og varið er í stjórnarskrá,“ segir Páll í pistli sínum og við skulum hreinlega gefa honum orðið:

„Mér líður stundum eins og ég hafi óvart lent í lélegri bíómynd enda sú atburðarás sem hófst fyrir ári síðan lyginni líkust. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er ekkert handrit, engin bíómynd ekki þáttur á Netflix. Fyrir ári síðan greip aðili nákominn mér, þjakaður af veikindum, til örþrifaráðs til að þóknast öðrum. Ég endaði á gjörgæslu og í öndunarvél og ef ekki væri fyrir stærð mína og hversu líkamlega hraustur ég er og fyrir framúrskarandi gott heilbrigðisstarfsfólk væri ég ekki hér. Við þessar aðstæður var sími minn tekinn og honum komið í hendur starfsmanns ríkisfjölmiðils okkar Íslendinga sem sá um að afrita hann og efnisbútum úr samtölum mínum við samstarfsmenn og vini, sem þar var að finna, dreift á milli valinna fjölmiðlamanna sem síðan hafa gert sér mat úr honum, nú síðast í lok desember 2021. Gefa sömu fjölmiðlamenn í skyn að þeir berjist fyrir göfugri æðri markmið en okkur almúganum eru skiljanleg. Nú þegar þeir vita upp á sig sökina og við færumst nær því að varpa ljósi á sannleikann reyna þeir að vekja samúð hérlendis sem erlendis með sjálfum sér, sem fórnarlömb „samsæris“, og reyna að sama skapi að skapa sektarkennd hjá þeim sem misgert var við.

„Ég veit ekki hvort skrifa eigi það á skilningsleysi þessa hóps á tungumálinu okkar eða illvilja en útúrsnúningar þeirra á myndlíkingum eru landamæralausar. Tungumálið okkar er auðugt og með öðrum orðum blása myndlíkingar enn meira lífi í frásagnir. Myndlíkingar samanstanda af þremur hlutum: raunverulegur þáttur, ímyndaður þáttur og tengingin þar á milli. Notkun þeirra er því til þess fallin að efla og auka áhrif þess sem sagt er. Að „stinga og snúa“ eða „strá salti í sárið“ er, eins og ég hef útskýrt, myndlíking á því að nudda fólkinu upp úr þeirri staðreynd að þau hafa aldrei geta svarað einföldum, beinskeyttum spurningum mínum um vinnubrögð sín.

Ég tók ákvörðun í nóvember 2019, eftir að hafa horft á Kveiksþátt um sturlaðar ásakanir í garð fólks sem ég hef þekkt um árabil af engu nema góðu, að ég vildi bjóða fram mína krafta og tjá mig opinberlega um Samherja, en þó aðeins á grundvelli staðreynda. Því vann ég náið með fólki sem hafði aðgang að öllum upplýsingum um ásakanir fjölmiðlamannanna og hins svokallaða uppljóstrara.

En hvað gerði ég sem kallaði þennan óskapnað yfir mig? Ég leiðrétti rangfærslur og spurði spurninga. Þeim var aldrei svarað heldur var lokað á mig á samfélagsmiðlum, vísað í „gögnin“ en aldrei hvaða gögn þó ég þráspyrði, og oft spurningum mínum eytt út. Gekk ég ákveðið fram um að fjölmiðlamennirnir sem stóðu að baki Kveiksþættinum svöruðu beinskeyttum spurningum mínum um vinnubrögð sín og rök. Höfðu þeir ekkert áþreifanlegt í höndunum heldur réttlættu gjörðir sínar með tilvísun í æðri tilgang og óljóst göfuglyndi. Þegar ég spurði um kjarnann, bentu þeir á hismið. „Gögnin tala sínu máli.“ Eða „þjóðin hefur sagt sitt“. En hvaða gögn og hvar sagði þjóðin eitthvað og hvað er þjóðin?

Þegar ekki dugði að eyða út athugasemdum eða svara mér með orðunum „gögnin tala sínu máli“ hafa þeir farið í mig persónulega. Ég var sakaður um að vera ekki höfundur greina minna. Myndi einhver ásaka Bubba Morthens að vera ekki höfundur ljóða sinna eða laga þó stafsetning sé ekki hans sterkasta hlið? Ég gagnrýndi vinnubrögðin en var jafnharðan ásakaður um að fara í persónur þó aldrei hafi verið hægt að finna því stað. Ég spurði um gögn og rökstuðning en var ásakaður um árásir.

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks og einn blaðamannanna til rannsóknar, hefur nú kært niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra til Landsréttar í máli sem tengist Páli, skiptstjóra hjá Samherja.