- Advertisement -

Ríkisstjórnin með blekkingar og blöff

„Í fréttatilkynningu sem ríkisstjórn Íslands sendi frá sér í gær og í yfirlýsingu forsætisráðherra á samfélagsmiðlum er trommað upp með að nú ætli ríkisstjórnin loksins að ráðast í raunverulegar aðhaldsaðgerðir til að slá á verðbólgu. Af kynningunni mátti ráða að verið væri að boða 36,2 milljarða viðbótaraðgerðir á tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs árið 2024. Fréttaflutningur gærdagsins markaðist af þessum skilningi, að nú væri ríkisstjórnin loksins að vakna af einhvers konar þyrnirósarsvefni, eins og það var orðað,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu í þingræðu í dag.

„Ég vil upplýsa þingheim um það hér að fjárlaganefnd fékk það staðfest núna rétt í þessu að það var í raun og veru ekkert viðbótaraðhald til að taka á verðbólgunni boðað í gær, ekki neitt, ekkert nýtt, og í samræmi við það hefur meiri hlutinn í nefndinni lagt til að fjármálaáætlunin verði samþykkt óbreytt. Allt tal um nýjar og afgerandi aðhaldsráðstafanir til að sporna gegn verðbólgu, sem rataði í fjölmiðla í gær, allt þetta var blekking og allt þetta var blöff. Raunar voru flestar af þeim aðgerðum sem voru kynntar í gær kynntar í þriðja sinn. Þetta voru mikið til aðgerðir sem komu fram í fyrri fjármálaáætlun, aðgerðir sem hafa hingað til ekki dugað til að slá á verðbólguvæntingar og munu ekki duga þótt þær séu kynntar í þriðja skiptið.

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að fólkið í landinu hafi endalausa þolinmæði fyrir spunaleikjum og almannatengslabrellum af þessu tagi, hvernig ríkisstjórnin kynnir sífellt gamlar aðgerðir sem nýjar, heldur sama blaðamannafundinn aftur aftur og felur sig á bak við starfshópa þegar kallað er eftir afgerandi stuðningsaðgerðum fyrir fólkið í landinu. Það eru heldur ekki heiðarleg stjórnmál, virðulegi forseti, að skapa falskar væntingar hjá fólki með uppblásnum fyrirsögnum sem reynist svo engin innstæða fyrir þegar búið er að afrugla hlutina. Það grefur undan trausti til stjórnmálanna og er lítilsvirðing við fólkið í landinu á erfiðum tímum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: