- Advertisement -

Rósa Björk mjög ósátt með Ara Trausta

Stuðningur Ara Trausta við formennsku Bergþórs Ólasonar veldur titringi innan Vg.

„Já, það sauð upp úr á fundi umhverfis – og samgöngunefndar í morgun þegar nefndarformaðurinn sneri aftur án þess að láta nokkurn í nefndinni vita. Tillögu þingmanna Samfylkingar, Viðreisnar og míns með stuðningi þingmanns Pírata um að kjósa um að hann myndi víkja sem formaður var vísað frá af nýjum meirihluta; þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokks og hins þingmanns VG í nefndinni með stuðningi Klausturþingmanna í nefndinni,“ skrifar Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vg, á Facebook.

Rósa Björk og Ari Trausti Guðmundsson eru fulltrúar Vg í nefndinni.

„Það var virkilega dapurlegt að sjá að þingmenn treystu sér ekki að taka afstöðu gegn kvenfyrirlitningu. Sérstaklega þingmann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem vill svo til að er hreyfing með kvenréttindi sem eina af grunnstoðum sínum.“

Innanmein Vg aukast enn.

„Þetta snýst nefnilega ekki um að láta afdrif Klaustursmálsins í fangið á minnihlutanum eða flækja málin í lagaflækjur, eins og reynt hefur verið. Heldur taka skýra afstöðu gegn kvenfyrirlitningu og með þolendum kvenfyrirlitningar. Og þetta snýst ekki síst um virðingu Alþingis, virðingu þingnefnda, virðingu við gesti sem koma á fundi okkar og að við höldum uppi ákveðnum gildum og prinsippum sem samfélag.

En látum ekki undan karlrembu og frekju. Höldum því til streitu,“ skrifar Rósa Björk.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: