„Hver eiginlega leyfði þessa heimsókn Gísla í Síðumúlafangelsið? Ekki var það Karl Schutz, né nokkur úr rannsóknarteyminu.“
Valdimar Olsen, einn þeirra sem var hnepptur saklaus í gæsluvarðhald, við rannsókn Geirfinnsmálsins, skrifaði ágæta grein þar sem hann andmælir aðkomu Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðingur að rannsókn málsins. „Þannig eyðilagði Gísli rannsóknina, án þess að spyrja kóng eða prest, og hann var ekki einu sinni í rannsóknarhópnum,“ segir Valdimar í grein sinni.
„Hvað var Gísli eiginlega að hugsa, og nú ber hann sér á brjóst og fær mikla athygli blaðamanns Morgunblaðsins, sem skrifar eins og Gísli sé sá eini sem geti eitthvað,“ skrifar Valdimar Olsen.
Það er ekki síst heimsókn Gísla í Síðumúlafangelsið sem Valdimar gagnrýnir. Þar voru sakborningarnir í gæsluvarðhaldi. „Hver eiginlega leyfði þessa heimsókn Gísla í Síðumúlafangelsið? Ekki var það Karl Schutz, né nokkur úr rannsóknarteyminu. Það ber einnig að taka fram að Gísli var á þessum tíma aðeins í námi, hann var ekki orðinn fullnuma eða útskrifaður úr náminu. Það sem gerðist þarna var að með þessu rauf hann gæsluvarðhaldsúrskurð sakborninganna, og þar með varð Gísli vanhæfur í öllu sem sneri að þessari rannsókn. Þannig eyðilagði Gísli rannsóknina, án þess að spyrja kóng eða prest, og hann var ekki einu sinni í rannsóknarhópnum,“ skrifaði Valdimar.
Hér er annar kafli úr grein Valdimars. Ég spyr, er Gísli þessi vísindamaður, sem allir virðast telja hann vera, eða fúskari? Hvað gerði Gísli Guðjónsson fyrir rannsókn Geirfinnsmálsins? Miðað við hvernig hann kemst að orði í þessari blaðagrein mætti halda að hann ætti heiðurinn af lausn Geirfinnsmálsins. En það er ekki rétt, Geirfinnsmálið er óleyst. Málið er í verri stöðu núna en það hefur verið undanfarin 40-50 ár. Sérstaki saksóknarinn, Davíð Þór Björgvinsson, skilaði engri niðurstöðu. Ég held að hann hafi ekki lengur nennt að halda málinu áfram eða að hann hafi talið að niðurstaðan sem hann kom með hafi verið þóknanleg Katrínu Jakobsdóttur.
Að mínu mati þarf að vinna þetta mál aftur. Annars verður það til eilífðar óklárað og með enga niðurstöðu.“
-sme
Grein Valdimars birtist í Mogganum fyrr í vikunni.