Sigmar Guðmundsson Viðreisn skrifaði:
„Miðflokkurinn vill ekki ganga í Evrópusambandið. Það liggur alveg fyrir. En í nýlegu þingmáli sem flokkurinn lagði fram á Alþingi, með sjálfan formanninn sem fyrsta flutningsmann, kemur skýrt fram að flokkurinn tekur undir þau rök Viðreisnar að fullreynt sé með íslensku krónuna. Í greinargerð áður nefndrar tillögu til þingsályktar frá formanni Miðflokksins segir orðrétt:
„Ef það finnast vinnanlegar olíu- eða gaslindir í íslenskri lögsögu hefði það samdægurs mikil áhrif á hag landsmanna. Það myndi einfaldlega breyta öllu í efnahagsumhverfi þjóðarinnar. Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Hægt yrði að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar og bjóða landsmönnum hagkvæm óverðtryggð íbúðalán, svo að dæmi séu tekin.“
Það er talsvert einfaldara að taka upp stöðug og sterka mynt með því að gera það sama og flestar aðrar Evrópuþjóðir, í stað þess að reiða sig á olíuleitarlotterí. En Miðflokkurinn á hrós skilið fyrir að undirstrika svona afgerandi að krónan er hvorki stöðug né sterk og að henni fylgi verðtrygging og óhagkvæm húsnæðislán.“