- Advertisement -

Það vantar 50% fleiri íbúðir í viðbót til að halda í við fjölgun landsmanna

Marinó G. Nj´alsson:

Bara fjölgun landsmanna á þessu ári kallar á 1.200 nýjar íbúðir, en aðeins 787 hafa komist á byggingarstig 4 það sem af er ári. Það vantar því 50% í viðbót til að halda í við fjölgun landsmanna sem af er ári.

Enn einu sinni koma staðreyndir Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra, á óvart. Að eigin sögn, var honum brugðið yfir að landsmenn væri komnir í 390.000.

Það er ekki eins og landsmönnum hafi fjölgað heil ósköp á milli birtingu talna um mannfjölda í lok ársins 2022 og þeirra í lok fyrsta ársfjórðungs 2023. Munurinn á 387.800 og 390.830 er vissulega rétt tæplega 0,8%, en mér finnst viðbrögð seðlabankastjóra ekki traustvekjandi. Spurningin er: Hvaða fleiri lykiltölur fyrir íslenska hagkerfið þekkir hann ekki? Eru réttar upplýsingar notaðar við útreikning á lykilhagtölum?

Ef við förum aðeins lengra aftur í tímann, þá hefur landsmönnum fjölgað um 50.720 (14,7%) á 6 árum samkvæmt tölum Hagstofu. Það gerir 8.453 að meðaltali á ári. Á sama tíma hefur íbúðum fjölgað um 16.685 (samkvæmt tölu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar). Það gerir 2781 íbúð á ári. (Hér er stuðst við hve margar íbúðir hafa komist á byggingarstig 4 á þessum 6 árum, þ.e. þær eru ekki fullgerðar og ekki endilega búið að flytja inn í þær. HMS birtir þessar upplýsingar á vef sínum.)

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bara fjölgun landsmanna á þessu ári kallar á 1.200 nýjar íbúðir.

Sé gert ráð fyrir að 2,5 einstaklingar búi að meðaltali í hverri íbúð (sem er ekki fjarri lagi), þá duga 16.685 íbúðir fyrir rétt innan við 42.000 manns, þannig að það sé miðað við þessi 6 ár, þá vantar hátt í 3.500 íbúðir til að anna eftirspurn! Bara fjölgun landsmanna á þessu ári kallar á 1.200 nýjar íbúðir, en aðeins 787 hafa komist á byggingarstig 4 það sem af er ári. Það vantar því 50% í viðbót til að halda í við fjölgun landsmanna sem af er ári.

Ég skora á seðlabankastjóra að létta undir með byggingargeiranum og koma með hvata til hans að byggja meira af íbúðum. Eins og staðan er í dag, og hefur verið frá því að Ásgeir settist í stól seðlabankastjóra, þá er skortur á húsnæði að þrýsta húsnæðisverði og verðbólgunni upp. Þrátt fyrir að aldrei hafi verið erfiðara að komast í gegn um nálarauga greiðslumats, þá hækkar húsnæðisverð og hlutur eigin húsnæðis (reiknuð húsaleiga) í vísitölu neysluverðs hefur mjög sjaldan hækkað meira og í verðbólgutölunum fyrir apríl (0,47%), en fór hæst í 0,56% í júní í fyrra og 0,51% í september 2016.

Þessi hækkun húsnæðisliðarins er sérlega áhugaverð, þar sem næstu 8 mánuði á undan var hækkunin að meðaltali 0,11% og 0,23% síðustu 12 mánuði. Hvernig stendur á þessari miklu hækkun núna? Hagstofan segir að útreikningarnir séu byggðir á kostnaði við húseignina og því ættu vextir að vega þyngra en húsnæðisverðið. Seðlabankinn hækkaði vextina 22. mars. Gera má ráð fyrir að Hagstofan taki hækkun vaxta á ný lán, frekar en raunverulega hækkun vaxta á þau lán sem hafa verið tekin. Dreg á þá ályktun af því, að samkv. 35.gr. laga 118/2016 um fasteignalán til neytenda, þá skal að jafnaði tilkynna um breytingar vaxta með 30 daga fyrirvara. Hækkanir á eldri lán koma því ekki til framkvæmda fyrr en síðustu daga í apríl eða í maí, en vextir hækka strax á nýjum lánum, þó engum detti í hug að taka slík lán í dag.

Seðlabankinn verður að leita annarra leiða.

Seðlabankinn hefur hækkaði vexti sína nokkuð oft frá því í febrúar 2022:

9/2/2022 úr 2,00% í 2,75% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,22% í febrúar og 0,35% í mars. Sérbýli hækkaði um 3,6% og 3,4% og fjölbýli um 3,0% og 5,0% þessa mánuði.

4/5/2022 úr 2,75% í 3,75% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,43% í maí og 0,56% í júní. Sérbýli hækkaði um 5,7% og -2,8% og fjölbýli um 3,5% og 0,5% þessa mánuði.

21/6/2022 úr 3,75% í 4,75% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,47% í júlí. Sérbýli hækkaði um 3,0% og fjölbýli lækkaði um 2,4% þennan mánuð.

24/8/2022 úr 4,75% í 5,50% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,09% í september. Sérbýli hækkaði um 9,4% og fjölbýli lækkaði um 1,4% þennan mánuð.

5/10/2022 úr 5,50% í 5,75% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,16% í október og 0,20% í nóvember. Sérbýli lækkaði um 6,7% og hækkaði 1,1% og fjölbýli hækkaði um 2,3% og lækkaði um 0,5% þessa mánuði.

23/11/2022 úr 5,75% í 6,00% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,08% í desember og 0,09% í janúar. Sérbýli lækkaði um 2,4% og 4,6% meðan fjölbýli hækkaði um 0,6% og 0,7% þessa mánuði.

8/2/2023 úr 6,00% í 6,50% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,02% í febrúar og 0,15% í mars. Sérbýli hækkaði um 5,2% og 3,4% og fjölbýli um 0,1% og 1,7% þessa mánuði.

22/3/2023 úr 6,50% í 7.50% -> Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,46% í apríl. Mánuðurinn ekki búinn og því eftir að reikna út verðþróun innan hans.

húsnæðisverð mun halda áfram að hækka meðan skortur á húsnæði er til staðar og eykst frekar en minnkar.

Ekki fullkomin fylgni, en hún er ansi mikil, þ.e. hækkun vaxta fylgir yfirleitt hækkun hinna þáttanna líka. Breytingar á húsnæðisverði er fengin úr þinglýstum kaupsamningum og því gæti nokkur tími hafa liðið frá því kauptilboð var gert og þar til samningar voru þinglýstir. Ég er samt ekki að sjá, að vaxtahækkanir Seðlabankans séu að hafa nokkur áhrif til lækkunar á húsnæðisliðum vísitölunnar eða húsnæðisverði. Frekar að áhrifin séu öfug. Menn verða að fara átta sig á því, að húsnæðisverð mun halda áfram að hækka meðan skortur á húsnæði er til staðar og eykst frekar en minnkar.

Seðlabankinn VERÐUR að leita annarra leiða til að ná verðbólgunni niður, en að hækka vexti inn á húsnæðismarkað sem býr við framboðsskort. Vissulega þurfa fleiri að koma að borðinu, bæði sveitarfélög og ríkisvaldið. Vita gagnlaus fjármálaáætlun býður ekki upp á neinar lausnir og sífellt er verið að ýta vandanum lengra inn í framtíðina. Það á að byggja, en bara ekki núna! Bíða á eftir því að einhverjir aðrir leysi vandann. Sorgleg staðreynd, en er ákaflega íslenskt. Aldrei má gera neitt fyrr en allt er komið í óefni og þá verður óhugnanlegur hagnaðurinn einkavæddur.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Miðjan valdi fyrirsögnina.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: