- Advertisement -

Varasamur varaþingmaður & skoðanavinir á villigötum

Tómas Guðbjartsson skrifar:

Verra er að starfsfólk spítalans er að veikjast í hrönnum og mörg teymi og deildir að sligast undir álagi – álagi sem fyrir jól var ærið.

…ÞAÐ VANTAR STARFSFÓLK.

Geggjað að lesa Moggann í morgun og fá staðfestingu á því að omicron sé bara saklaust kvef – enda lítið mál að hrista af sér smá veirupest! Samt liggur fárveikt fólk á gjörgæslunni hjá okkur og enn fleiri á smitsjúkdómadeild – þar sem þeim bara fjölgar, en undanþágugigg á Þorláksmessu hafa varla hjálpað til. Verra er að starfsfólk spítalans er að veikjast í hrönnum og mörg teymi og deildir að sligast undir álagi – álagi sem fyrir jól var ærið. Sjálfur hef ég verið í vinnunni sleitulaust í 10 daga og man ekki annað eins á mínum 30 árum sem læknir. Áðan kom síðan upp hópsmit á hjartadeild, sem er stærsta legudeild sjúkrahússins. Sjúklingar þeirrar deildar mega illa við Covid-sýkingu ofan á alvarlegan hjartasjúkdóm. Því er skiljanlegt að skynsamur sóttvarnalæknir reyni að bremsa faraldurinn með viðurkenndum aðferðum. Þetta virðast sumir þingmenn og ráðherrar bara alls ekki skilja – og eru sífellt að vísa í frelsi einstaklingsins og að stóri bróðir sé að taka yfir sjoppuna. Síðan hvenær getur frelsi einstaklings gengið út yfir frelsi annarra? Það eru jú mannréttindi að sýkjast ekki af sjúkdómi sem getur verið banvænn – sérstaklega ef maður er veikur fyrir. Eða viljum við búa í samfélagi þar sem aðeins þeir sterkustu lifa af? Af hverju skyldu öll lönd í kringum okkur fara leið sóttvarna og verja heilbrigðiskerfi sín? Eru engin mannréttindi þar á bæ – og þeir bara hreinir vitleysingar? Eða vantar þá erlendis varaþingmann og fyrrverandi héraðsdómara eins og Arnar Þór Jónsson, sem sífellt beitir fyrir sig bulli og fer síðan í mál við fólk sem hefur heilbrigðari skynsemi en hann sjálfur? Allt til að skora pólitískar keilur að hætti Trump. Varasamur varaþingmaður það – sem greinilega hefur aðra hagsmuni í heiðri en heildarinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

ps. læt fylgja með brakandi ferskar myndir af hágæslurými gjörgæslunnar við Hringbraut, stofu 1. Hún er enn nýtt sem geymsla (hátæknigeymsla!), enda þótt ráðherra og almenningur haldi annað. Ástæðan er einföld – það vantar starfsfólk. Lausnin á því felst ekki í fleiri skýrslum, erlendum ráðgjöfum eða fundum, heldur kjarabótum sem lokka aftur á sjúkrahúsið gjörgæsluhjúkrunarfræðinga sem horfið hafa til annarra starfa. Stundum eru lausnir óþægilega einfaldar – ekki síst þær sem kom beint af býli.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: