- Advertisement -

Vonandi tekst ráðherrunum í sínum flumbrugangi að rata á þolanlega lausn

Ef við reiknum með að helmingur Pólverja á Íslandi vildi heimsækja heimalandið í sumar þá myndi hópurinn greiða um hálfan milljarð fyrir sýnatöku í Leifsstöð.

Gunnar Smári skrifar:

Hver á að borga sýnatöku í Leifsstöð? Ráðherrarnir segja að ríkið borgi fyrstu tvær vikunnar en síðan verði farþegar rukkaðir (annað hvort beint eða í gegnum þau fyrirtæki sem flytji þá hingað). Ekki hefur mátt merkja mikinn áhuga almennra ferðamanna á að koma hingað upp á þessi skipti, þ.e. sýnatöku og svo sóttkví ef einhvern nálægt þér í vélinni reynist jákvæður; almenn ferðamennska mun líklega ekki eflast fyrr en ferðatakmörkunum verður almennt aflétt í heiminum. Fram að því verða ferðalög milli landa bundin við þau sem eiga brýnt erindi og þau sem tilheyra fjölskyldum sem skiptar eru milli landa. Það á t.d. við um Pólverja á Íslandi, sem eru rétt tæplega tuttugu þúsund. Í venjulegu árferði mætti reikna með að helmingur þeirra, eða meira, færu til Póllands í sumarleyfinu að heimsækja ættingja. Í sumar verður þetta dýrara, reikna má með því að fargjöld hækki og svo leggst 200 þús. kr. á ferðakostnaðinn þegar fjögurra manna fjölskylda snýr aftur heim til Íslands. Ef við reiknum með að helmingur Pólverja á Íslandi vildi heimsækja heimalandið í sumar þá myndi hópurinn greiða um hálfan milljarð fyrir sýnatöku í Leifsstöð. Kannski ættum að kalla þessa gjaldtöku pólska skattinn (þótt allir innflytjendur séu auðvitað í sömu aðstæðum).

En hvað væri til ráða?

En hvað væri til ráða? Einn kostur væri að rukka ferðamenn um gjald en fella kostnað við sýnatöku inn í almenna heilbrigðiskerfið fyrir fólk sem býr á Íslandi og borgar skatta til samfélagsins. Það eru svipaðar reglur og gilda almennt í heilbrigðiskerfinu, ferðafólk borgar fullt gjald fyrir heilbrigðisþjónustu og á síðan mögulega endurkröfu á sjúkratryggingarkerfið í sínu heimalandi.

Vonandi tekst ráðherrunum í sínum flumbrugangi að rata á þolanlega lausn. Ég er samt ekki bjartsýnn. Hefur þeim tekist að búa til kerfi sem virkar í kingum brúarlánin eða lokunarstyrkina?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: