- Advertisement -

Vandi hinna verr settu er valdaleysið

Sósíalistar vilja að stofnað verði félag leigjenda hjá Félagsbústöðum til að gæta hagsmuna sinna. Félagið fái síðan þrjá áheyrnarfulltrúa í stjórn Félagsbústaða

Daníel Örn Arnarsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, vill að leigjendur Félagsbústaða fái rödd í stjórn fyrirtækisins.
„Elítan telur sig hæfa til að taka allar ákvarðanir fyrr hin verr settu. Og dæsir þegar hún hækkar launin sín vegna þess hversu mikla ábyrgð hún ber. Þetta er fráleit afstaða. Vandi hinna verr settu er valdaleysið. Og þau eru miklu betur til þess fallin að taka ákvarðanir um eigin stöðu en nokkur annar,“ segir hún.
„Við leggjum til að borgin stuðli að því að leigjendur innan Félagsbústaða stofni félag til að gæta hagsmuna sinna gagnvart fyrirtækinu og að þetta nýja félag leigjenda fái að skipa þrjá áheyrnarfulltrúa í stjórn Félagsbústaða,“ segir Sanna en hún mun leggja þessa tillögu fram á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar á þriðjudaginn í næstu viku, 19. júní.

Leigjendur aldrei spurðir
„Leigjendur hjá Félagsbústöðum upplifa mikið valdaleysi og þau sem eru föst á biðlista eftir félagslegu húsnæði,“ segir Sanna. „Það eru langar boðleiðir frá þeim sem leigja hjá Félagsbústöðum til þeirra sem taka ákvarðanir. Leigjendur hafa ekkert með þróun fyrirtækisins að gera, þeir koma ekki að ákvörðunum um stefnuna og hafa engin áhrif á þjónustuna. Þetta er ekki aðeins slæmt fyrir leigjendurna heldur líka fyrirtækið sjálft. Það er ekki hægt að byggja upp góða þjónustu nema í gegnum virkt samtal og samráð við þau sem nota þjónustuna.“
„Á nýfrjálshyggjuárunum voru félagslegar íbúðir fluttar út úr borgarkerfinu yfir í sérstakt fyrirtæki, sem er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista. „Þetta fyrirkomulag er einskonar fyrsta skref til einkavæðingar. Opinberri stofnun er breytt í hlutafélag og mótun stefnu og starfsemi flutt frá lýðræðislega kjörnum vettvangi borgarstjórnar til stjórnarmanna hlutafélags, sem standa skil gagnvart borginni sem hlutafjáreiganda fremur en samfélagi fólks. Félagslegar íbúðir eru settar inn í félag sem lætur eins og það sé fyrirtækið á almennum markaði í eigu einhvers kapítalista.“

Til varnar ofurafli hinna ríku
„Auðvitað er það markmið sósíalista að skrúfa ofan af þessari hlutafélagavæðingu opinberrar þjónustu,“ segir Sanna, „en við höfum ekki nægt afl til þess í dag. Þess í stað leggjum við til að Reykjavíkurborg stuðli að því að leigjendur hjá Félagsbústöðum myndi félag utan um sameiginlega hagsmuni sína og fái tækifæri til að stunda nauðsynlega baráttu fyrir hagsmunum sínum. Fyrirtækin og hin ríku geta stundað grimma hagsmunabaráttu í samfélaginu og hlutafélagavæðing Félagsbústaða er ein afleiðing þess. Ef við viljum ekki að samfélagið verði að öllu leyti mótað að hagsmunum hinna ríku verðum við að efla samtakamátt almennings og stuðla að uppbyggingu félaga um almannahag. Fólk verður að hafa tæki til að verjast ofurafli hinna ríku.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: