- Advertisement -

1.590 störf – ekki sjö þúsund

Gunnar Smári skrifar:

Það er leiðinlegt frá að segja, en maður er orðin hálf ónæmur fyrir þessum fundum ríkisstjórnarinnar þar sem stórátök til hins og þessa eru kynnt. Framan af kórónakreppunni fóru blaðamenn yfir efndirnar á þessu og það var ekki fögur lesning. Heimsmetið í efnahagsaðgerðum sem voru kynnt fyrir tæpu ári var til dæmis lítið annað hugmyndir sem ekkert varð úr, aðgerðir sem enginn notaði.

En hvað með þetta? Á maður ekki að fagna að ríkisstjórnin komi loks með aðgerð þar sem atvinnuleysisbæturnar eru notaðar til að búa til störf? Jú, að sjálfsögðu. En það má spyrja hvers vegna hin atvinnulausu sjálf fái ekki að ráðstafa sínum bótum, hvers vegna valdið til að búa til störf sé aðeins hjá fyrirtækjum og stofnunum? Þegar fyrirtæki missa þrótt til að halda uppi störfum og það verður ekki gert nema með framlagi úr almannasjóðum; er þá ekki rétt að valdið færist til almennings. Ef Jón atvinnulaus og Gunna atvinnulausa vilja búa til starf þá eiga þau að fá atvinnuleysisbæturnar sínar næsta árið til að búa það til, starfið sem þau helst vilja vinna. Það er fráleitur milliliður að setja fyrirtæki í þá stöðu að búa til starfið fyrir Jón og Gunnu.

Svo eru það stærðirnar í þessu. 5 milljarðar í 7 þúsund störf. Það er 714 þús. kr. á starf. Humm, rosalega hljómar það trúverðugt. Þarna er sagt að 472 þús. kr. fylgi hverjum starfsmanni í sex mánuði plús 11% lífeyrissjóður sem gera 3.144 þús. kr. yfir tímann. Fimm milljarðar duga þá fyrir 1590 störfum, ekki sjö þúsund.

En svo er þetta ekki nýtt fé. Þetta er fé sem hvort sem er fer í atvinnuleysisbætur í dag. Upphæðin er byggð á meðaltali kostnaðar Vinnumálastofnunar af hverjum atvinnulausum. Þessi aðgerð snýst því um það að fyrirtæki og stofnanir geti sótt um að fá þennan pening gegn því að ráða fólk af atvinnuleysisskrá. Þetta er ekki aukið framlag til atvinnulausra, frekar formleg viðurkenning á því að hin atvinnulausu munu ekki og eiga ekki að búa til störf heldur er það starfandi fyrirtækja að gera það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: