Stjórnmál
„Þessi vinnubrögð eru með hreinum ólíkindum. Umsókn Hvals hf. um leyfi til hvalveiða hefur legið óhreyfð í ráðuneytinu í hartnær fjóra mánuði og nú fyrst er leitað umsagna um hana og meira að segja til aðila sem ekkert hafa um málið að segja. Samkvæmt lögum um hvalveiðar ber aðeins að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, ekki annarra,“ segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Umsókn okkar um leyfi til hvalveiða barst matvælaráðuneytinu í ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur, en þá var Svandís Svavarsdóttir komin í veikindaleyfi. Þetta segir mér að Katrín hefur ekki verið að vinna vinnuna sína. Svo ætlar fólk að fara að kjósa hana á Bessastaði. Hún mun væntanlega ekki svara neinum fyrirspurnum sem til forsetaembættisins berast, verði hún kosin, ef þetta eru vinnubrögðin sem hún temur sér. Enda rímar þetta vel við það hvernig stalínistar vinna,“ segir Kristján, heitt í hamsi, í Mogga dagsins.