- Advertisement -

3.200 prósenta kostnaður af smáláni

Neytendur Þegar allur kostnaður er tekinn með í útreikninginn verður árlegt hlutfall kostnaðar hjá öllum smálánafyrirtækjunum mjög hár, eða 2.036,6% hjá Múla, Hraðpeningum og 1909 og 3.214,0% hjá Kredia og Smálán. Vegna þessa hefur Neytendastofa sektað smálánafyrirtækin fyrir að fara ekki eftir lögum um neytendalán.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að lánssamningar vegna neytendalána séu í lagi. Hluti af eftirlitinu er að fara yfir hvort allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram í samningum og hvort árlega hlutfallstölu kostnaðar sé rétt reiknuð. Lánveitendur eiga í lánssamningi að veita neytendum bæði skýrar upplýsingar um kostnað sem fylgir láninu, þ.e. lántökugjöld, vexti, þóknun, skatta og öll önnur gjöld, og upplýsingar um árlegt hlutfall kostnaðar. Árleg hlutfallstala kostnaðar er allur kostnaður af láninu gefinn upp í einni prósentutölu sem má samkvæmt lögum um neytendalán ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Lögin setja því takmörk við því hversu mikinn kostnað lánveitendur mega taka.

Árleg hlutfallstala kostnaðar á að auðvelda neytendum að bera saman kostnað af lánum frá ólíkum lánveitendum og þannig komist að því hvar hagstæðasta lánstilboðið er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Neytendastofa tók til skoðunar kostnað sem smálánafyrirtækin taka og hvernig kostnaður lántaka er reiknaður. Fyrirtækin bjóða neytendum lán sem tekur um átta daga að afgreiða og rukka fyrir það kostnað sem nemur um 50% á ári. Þessu til viðbótar geta neytendur valið að fá lánshæfismat afgreitt á einni klukkustund til þess að fá lánið greitt út strax. Fyrir flýtiþjónustuna þarf að borga aukalega en fyrirtækin hafa ekki tekið kostnaðinn af henni með í útreikninginn.

Í skýringum fyrirtækjanna kom fram að þar sem neytendur geta vali hvort þeir borgi fyrir að fá lánhæfismat afgreitt hraðar teljist kostnaðurinn af matinu ekki hlut af heildarlántökukostnaði og sé þess vegna ekki hluti af kostnaði af lántökunni. Neytendastofa féllst ekki á þessa skýringu þar sem lánveitandi á að framkvæma lánshæfismat þó hann megi rukka fyrir það. Kostnaður við gerð lánshæfismats telst hluti af heildarlántökukostnaði og á hann að vera innifalinn í útreikningi á kostnaði lántaka.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: