- Advertisement -

Fólk lifir lengur – færri börn fæðast

Það er miklu meira gaman að hafa fleiri börn, þau eru svo skemmtileg.

Í Kastljósi ræddi aðstoðarframkvæmdastjóri SA um aukna byrði vegna þess að fólk lifir lengur og færri börn fæðast. Þetta verður hins vegar ekki endilega raunin. Aukning innflytjenda, fólks á vinnualdri, frá því fyrir Hrun vinnur til dæmis gegn þessu. Í raun gætum við gert áætlun um að hingað kæmu að jafnaði eitt eða tvö þúsund manns á ári næstu áratugina til að vinna á móti þessu.

Og byrðin af eldra fólki segir heldur ekki allt. Hér er línurit sem nær aftur til 1841 og sýnir hversu margir á vinnualdri, 16-64 ára, á móti þeim sem eru yngri og eldri. Þarna má sjá holu á seinni hluta nítjándu aldar sem kann að merkja Vesturferðir (fólk á vinnualdri fór) en svo nokkuð jafnvægi þar til baby boom-kynslóðin býr til holu upp úr miðri síðustu öld (fleiri börn fæðast) en síðan rís línan þegar þær kynslóðir eldast og barneignir dragast saman. Eftir aldamótin má síðan sjá línuna rísa enn frekar, og það er merki um að hingað flytur inn fólk á vinnualdri. Án innflytjenda hefði línan sígið, því fyrstu bylgjur baby-bomm náðu 65 ára aldri um fljótlega upp úr aldamótum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Málflutningur Ásdísar Kristjánsdóttur var því kannski ekki alveg réttur. Það var sýn fólks á seinni hluta síðustu aldar að samfélög þar sem lífslíkur aukast en barnsfæðingum fækkar myndu lenda í vandræðum á næstu áratugum. Innflytjendur breyta þessari framtíðarsýn hins vegar mikið. En SA vill samt viðhalda eldri sýn í von um að geta hækkað eftirlaunaaldur og látið fólk vinna lengur, ýta undir niðurskurð og útvistun hjá hinu opinbera og sækja með öllum tiltækum ráðum á eignir og réttindi almennings.

Ég veit að sum ykkar mynduð vilja hafa aldursbil vinnandi annað. Þetta er hins vegar klassískt bil og hentar til að skoða yfir langan tíma.

Ef þið hafið gaman að skoða söguna í gröfum þá er þetta líka hefðbundin framsetning; þrír aldurshópar frá 1841-2021. Þetta með að börnum hætti að fjölga um 1970, fækki meira að segja aðeins þótt landsmönnum fjölgi mikið er sorglegt. Það er miklu meira gaman að hafa fleiri börn, þau eru svo skemmtileg. Ég man þegar ég hafði ferðast um Hálöndin og skosku eyjarnar og fór svo yfir til Írlands þá skynjaði ég þetta sterkt, samfélögin í Hálöndunum og eyjunum hafa elst mikið en á Írland er enn ungt samfélag og fullt af börnum, ferjan var eins og barnaheimili. Og þótt eldra fólk sé vissulega ágætt fyrir sinn hatt þá er samfélag þar sem börn eru ekki nema tæplega fimmti hver maður, eins og raunin er í dag á Íslandi, svolítið annað samfélag en þegar ég fæddist og börn voru rétt tæplega 37% landsmanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: