- Advertisement -

Keppinautarnir vildu skiptast á upplýsingum

Viðskipti Baldur Björnsson, Baldur í Múrbúðinni, er í löngu og góði viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Þar segir hann, meðal annars, að starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar hafi boðið Múrbúðinni að taka þátt í verðsamráði árið 2010. Samkeppniseftirlitið hafi samstundis verið upplýst um málið.

Baldur segir að Múrbúðin hafði þá undirbúið sölu grófvörur, þ.e. plötur og timbur. Skömmu áður en salan hófst settu risanir á markaðnum sig í samband við starfsmenn verslunarinnar. „Starfsmaður Húsasmiðjunnar hringdi og starfsmaður Byko vingaðist við starfsmann hjá mér og í ljós kom að þeir vildu skiptast á upplýsingum. Þeir sögðu að það mætti ekki senda tölvupóst heldur yrði að hittast enda væri aldrei að vita yfir hvaða gögn eftirlitsaðilarnir kæmust. Við upplýstum Samkeppniseftirlitið um þetta samdægurs. Þetta sýnir að verðsamráð hefur átt sér stað,“ segir Baldur í viðtalinu.

Lækkuðu báðir verðið jafnmikið

Þremur vikum eftir að fyrsti timburfarmur Múrbúðarinnar kom til landsins lækkuðu Byko og Húsasmiðjan verð á sömu vörum um 25%. „Fyrirtækin tvö lækkuðu verðin nákvæmlega jafnmikið en bara á þeim vörum sem við hófum sölu á, ekki öðrum, þannig að dæmi voru um að langir plankar voru verðlagðir á lægra verði, en á sömu stuttu plönkunum sem voru ekki í prógramminu okkar. Þetta er ekki samkeppni að mínu mati, heldur augljós tilraun til að koma nýjum aðila út af markaðnum

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta átti sér stað eftir að Samkeppniseftirlitið hafði tekið starfsmenn fyrirtækjanna í yfirheyrslur. Hvernær byrjaði samráðið og hvenær hætti það? Á það sér stað enn þann dag í dag?

Þetta er ekkert annað er »predatory pricing« [árásarverðlagning innsk. blm.]. Við leituðum til Samkeppniseftirlitsins og kærðum þetta. Við báðum um að þessar verðlækkanir yrðu stöðvaðar. Okkar rök voru að fyrirtæki sem tapa allt að hálfum milljarði á ári, hvort um sig, hefðu ekki ráð á að lækka verðið svona mikið.

Við hefðum þurft 5-7% markaðshlutdeild til að koma út á sléttu. Við náðum þeirri hlutdeild aldrei. Jafnvel þótt við hefðum lækkað verðið mikið á markaðnum, þá fengu verktakar enn betra verð hjá keppinautum og þeir kusu að versla ekki við okkur. Það voru í raun einungis minni verktakar sem versluðu við okkur. Ekki þeir stærri.

Við vorum ginningarfífl, lækkuðum verðið á markaðnum en fengum ekki viðskiptin. Það var aldrei markmiðið að lækka verð hjá þeim sem ekki skipta við okkur heldur hjá þeim sem eiga við okkur viðskipti.

Við kærðum þetta til Samkeppniseftirlitsins í apríl árið 2011 og kærðum aftur með frekari gögnum árið 2013 en ekkert gerðist. Fram kom í bréfi frá Samkeppniseftirlitinu að það mundi ekki taka erindið til formlegrar meðferðar nema nýjar upplýsingar kölluðu á slíka athugun,“ segir Baldur.

Gafst upp á grófvörunni

Fram kom í bréfinu að í kjölfar kæru Múrbúðarinnar þess efnis að Byko og Húsasmiðjan hefðu boðið félaginu að taka þátt í verðsamráði, hefði Samkeppniseftirlitið kært fyrirtækin til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Það hefði leitt til þess að gerð var húsleit hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum.

Fyrrverandi eigendur Húsasmiðjunnar hafa samið um að greiða 325 milljón króna sekt vegna málsins.

„Þessar ólöglegu aðgerðir leiddu til þess að ég gafst upp á því að reka grófvörudeild fyrir ári síðan. Starfsemin hófst árið 2010. Ég er bara múrari sem býr í Breiðholti. Ég get ekki hugsað mér að tapa peningum fyrir einhverja sem ekki versla við mig. Ég er að sýna ábyrgð gagnvart fjölskyldu minni, lánadrottnum, þeim sem selja mér vörur og fleirum. Staða Húsasmiðjunnar er hins vegar firnasterk á þessum markaði einmitt vegna samkeppnislagabrota,“ segir Baldur.

Það sem hér er birt er alfarið byggt á og tekið úr viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: