- Advertisement -

SDG losi sig við Gunnar Braga og Bergþór

Meðal þeirra eldri Sjálfstæðismanna sem hafa gefist upp á eigin flokki, og hugað að inngöngu í Miðflokkinn, er krafa, eða tillaga hið minnsta, um að Sigmundur Davíð formaður sjái til þess að hvorki Gunnar Bragi Sveinsson né Bergþór Ólason verði framvegis í framboði fyrir Miðflokkinn.

Það ætti ekki að vera gustukaverk að loka á Bergþór. Öðru máli gegnir um Gunnar Braga. Hann er pólitískur vinur Sigmundar Davíðs og er að auki bæði þingflokksformaður og varaformaður Miðflokksins.

Þeir sem rætt hefur verið við segjast ekki vilja í flokk þar sem þeir sem mest fór fyrir á Klausturbarnum verði í forystu þess flokks sem þeir vilja styðja.

Bergþór Ólason.

Þessir sömu menn horfa til Sigmundar Davíðs sem sterkasta stjórnmálamann nútímans.

En er það bara hans vegna sem menn sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn vilja færa sig yfir í annan flokk?  Nei, það ræður ámóta miklu og vonbrigði með núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins.

Sagt er að fylkingarnar séu þrjár. Sú fyrsta getur ekki annað en verið áfram í Sjálfstæðisflokknum. Önnur er sú þar sem eru menn sem hafa alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en segjast ekki getað það lengur og muni ekki gera. Þeir munu heldur ekki kjósa nokkurn annan. Sitja heima eða skila auðu. Þriðja fylkingin er gengin til liðs Miðflokksins, formlega eða óformlega.

Sem fyrr segir þarf Sigmundur Davíð að gera upp við sig hvað hann vill. Vill hann drjúgan hluta af öldungadeild Sjálfstæðisflokksins og fórna bæði Gunnar Braga Sveinssyni og Bergþóri Ólasyni? Já, flestir veðja á það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: