- Advertisement -

Að flytja völd, eignir og fé frá hinum mörgu til hinna fáu

…stjórn sem rúmar nokkurn veginn spektrúmið frá Viðreisn að hinu sótsvartasta í Sjálfstæðisflokknum.

Gunnar Smári skrifar:

Hollendingar kusu ríkisstjórnina áfram sem sagði af sér vegna ofsókna skattkerfsins gagnvart fólki af innflytjendaættum. Þar mun Mark Rutte því líkast til mynda sömu stjórn áfram, stjórn sem rúmar nokkurn veginn spektrúmið frá Viðreisn að hinu sótsvartasta í Sjálfstæðisflokknum. Og ég er sósíalisti, svo ég er hér ekki að vísa til Viðreisnar sem miðjuflokks, eins og stundum má heyra í umræðunni. Viðreisn en er eins og Demókratar 66 í Hollandi auðræðisflokkur að nýfrjálshyggjuhætti, hefur það markmið að flytja völd, eignir og fé frá hinum mörgu til hinna fáu.

En hvað merkir þetta? Eru þetta cóvid-áhrif?

Fyrir cóvid sýndu kannanir að stjórnarflokkarnir fjórir hefðu misst mikið fylgi. Þeir voru með 76 þingmenn eftir kosningarnar 2017 en mældust með 53 þingmenn um miðjan febrúar fyrir ári áður en kórónafaraldurinn skall á. Í kosningunum fengu þeir hins vegar 79 þingmenn. 

Fyrir cóvid leit út eins og vinstrið væri að jafna sig eftir stórkostlegt tap Verkamannaflokksins 2017. Sá gamli valdaflokkur plús Sósíalistar, Vinstri græn og 50+ flokkur eftirlaunafólks fengu 41 þingmann í kosningunum 2017 en mældust með 49 þingmenn í febrúar í fyrra en fengu aðeins 26 í kosningunum í vikunni. 

Þetta er stóra sveiflan, frá hinu eldra vinstri yfir til hins eldra hægri. Últra hægrið, sem er sterkt í Hollandi, fékk 22 þingmenn í kosningunum 2017 í tveimur flokkum, mældist með 35 þingmenn fyrir cóvid og fékk 30 í kosningunum. Náði að sækja fram þrátt fyrir cóvid, öfugt við eldra vinstrið. 

Og aðrir flokkar sem ekki eru í þessum þremur megindeildum (eldra hægri, eldra vinstri og últra hægri), þ.e. flokkar dýra, Kalvínista, innflytjenda, harðra Evrópusinna, bænda o.s.frv., voru með 6 þingmenn 2017, mældust með 7 fyrir cóvid en fengu 14. Eins og últra hægrið náðu þessir flokkar að sækja þrátt fyrir cóvid.

Næstu stóru kosningar í okkar heimshluta verða í haust í Noregi, tæpum tveimur vikum áður en kosið verður á Íslandi. Má sjá sömu merki cóvid á norsk stjórnmál?

Fyrir cóvid höfðu núverandi stjórnarflokkar (hægra spektrúm frá einskonar Viðreisn að Miðflokki, með öllum deildum Sjálfstæðisflokksins inn í sér) tapað fylgi, farið úr tæpum 49% niður í rúm 39%, fyrst og fremst vegna taps Hægri flokks Ernu Solberg. Í dag mælast þessir flokkar með rúm 41% en sú breyting hefur orðið að Hæri flokkurinn hefur unnið mikið á en Framfaraflokkurinn tapað fylgi.

Vinstri blokkin, frá Verkamannaflokknum og Græningjum að róttækari sósíalistum, bæði einskonar VG og Sósíalistaflokknum íslenska, fékk 39% í kosningum en mældist með tæp 43% fyrir cóvid en hefur fallið niður í rúm 38%, fyrst og fremst vegna fylgistaps hjá Verkamannaflokknum. Vinstrið hefur því ekki náð að sækja í cóvid, verst hefur hið gamla og hefðbundna staðið sig.

Þarna á milli er svo Miðflokkurinn norski, sem er önnur tegund en sá íslenski, hefur fyrst og fremst vaxið á kröfum um aukna valddreifingu og andóf gegn miðstýringu ríkisvaldsins í Osló. Miðflokkurinn fékk rúm 10% í kosningunum, mældist með tæp 17% fyrir cóvid og mælist nú með tæp 19%. Þetta er það fyrirbrigði sem vaxið hefur mest á kjörtímabilinu, mældist með yfir 22% undir árslok 2020 og stærsti flokkurinn, sem er hreint magnað því Miðflokkurinn hefur verið með um eða undir 10% frá því fyrir seinna stríð. 

Miðflokkurinn hefur bæði unnið til hægri og vinstri, sögulega oftar til hægri en síðast til vinstri. Ef ríkisstjórnin fellur í haust mun Miðflokkurinn hafa mest um það að segja hvers konar stjórn verður mynduð. Eina stjórnin án hans aðkomu væri kannski samstarf Hægri flokksins og Verkamannaflokksins að hætti þýskra, sem verður þó að teljast ólíkleg niðurstaða. Það er lítið þol fyrir slíku á Norðurlöndum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: