- Advertisement -

Aðgangur að hafsvæðunum hefur í raun verið gefinn norskum auðmönnum

Þá horfa stjórnvöld algjörlega fram hjá því að fyrirtækin geta auðveldlega komið því við að þau séu rekin með bókhaldslegu tapi og komist þannig fram hjá greiðslu á tekjuskatti.

Jón Þór Ólason.
Jón Þór Ólason, formaður SVFR.

Jón Þór Ólason, lögmaður og formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, skilur fátt eftir í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag. Gluggum í greinina. Byrjum á Svandís Svavarsdóttur og Vinstri grænum.

„Meira að segja Vinstri grænir, sem eiga þó á tyllidögum að standa fyrir náttúruvernd, eru í raun hörðustu stuðningsmenn norskra auðmanna sem eiga um 90% í þessari mengandi atvinnugrein. Vanþekkingin er algjör, enda var því m.a. haldið fram í svörum matvælaráðherra að erfðablöndun eldislaxa við villta íslenska laxastofna hafi ekki verið staðfest, sem er bersýnilega rangt enda þurfti ráðherrann að bakka með þessa röngu fullyrðingu, sem hverjum manni mátti þó vera fullkomlega ljós.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þá er það Guðlaugur Þór Þórðarson:

Svandís matvælaráðherra og Guðlaugur Þór umhverfisráðherra.

„Umhverfisráðherra vílar það ekki fyrir sér að skipa stuðningsmenn og „lobbíista“ netapokaeldisins í starfshópa á vegum ríkisvaldsins, sem sýnir fram á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í engu að vinna að vernd hinnar íslensku náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa sýnt það í verki að þau standa þétt að baki hinum erlendu aflandsfélögum sem ætla að fénýta íslenska náttúru.“

Og svo þetta:

„Getuleysi stjórnvalda í málaflokki þessum hefur verið gagnrýnt árum saman og því kemur það engum á óvart að Ríkisendurskoðun hafi skilað kolsvartri skýrslu um fiskeldi og að í skýrslunni sé að finna metfjölda ábendinga og tillögur að úrbótum. Netapokafyrirtækin hafa enda náð ótrúlegum árangri í að beygja stjórnvöld og komist undan nær öllum hækkunum á fiskeldisgjöldum. Aðgangur að takmörkuðum hafsvæðum í hinu ómenguðu hafsvæðum í sameign Íslendinga hefur í raun verið gefinn norskum auðmönnum.“

Svo er það skýrsla Ríkisendurskoðunar:

Öll lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi er í rjúkandi rúst.

„Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir Alþingi og íslenskum stjórnvöldum sem hafa nú um árabil horft fram hjá því að eldi í netapokum er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu og mun valda óbætanlegum og óafturkræfum skaða á íslensku lífríki, enda víla netapokafyrirtækin það ekki fyrir sér að hella eitri í íslenska firði. Þá horfa stjórnvöld algjörlega fram hjá því að fyrirtækin geta auðveldlega komið því við að þau séu rekin með bókhaldslegu tapi og komist þannig fram hjá greiðslu á tekjuskatti.

Skýrslan sýnir raunar fram á að stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafi verið veikburða og brotakennt og ekki í stakk búin til að takast á við aukin umsvif hinnar mengandi stóriðju á síðustu árum. Öll lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi er í rjúkandi rúst. Staðan er því einfaldlega sú að íslensk stjórnvöld hafa fallið á kné fyrir norskum auðmönnum og tilbiðja ekki gullkálf við rætur Sínaeifjalls heldur líkneski af norskum netapokalaxi sem mun valda óafturkræfum skaða á íslenskri náttúru og ógnar hinum íslensku „kotbændum“.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: