- Advertisement -

Andstæðingur sest á þing fyrir VG

Að skjóta hækju undir ráðherrastóla Bjarna og Sigríðar.

„Nú er komið að vatnaskilum. Ég get einfaldlega ekki tekið þátt í þessari vegferð. Ég get ekki réttlætt samstarf við íhaldið fyrir sjálfum mér. Ég get ekki samþykkt það að skjóta hækju undir ráðherrastóla Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen,“ skrifaði Gísli Garðarsson, sem nú tekur sæti á Alþingi, sem varamaður Andrésar Inga Jónssonar, á Facebook þegar honum ofbauð að flokkurinn gengi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Gísli hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vinstri græn undanfarin ár, meðal annars sem flokksráðsfulltrúi og stjórnarmaður í Reykjavíkurfélagi flokksins, verið fulltrúi flokksins í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar og tvívegis fengið kosningu sem varaþingmaður, eftir því sem fram kom á Stundinni árið 2017.

„Íhaldið hefur aldrei viðurkennt svo mikið sem brotabrot af sinni ábyrgð á hruninu, Panamaskjölunum eða leyndarhyggjunni sem felldi síðustu ríkisstjórn. En síðast en ekki síst ber flokkurinn einn og nánast óstuddur alla ábyrgð á mengandi kapítalísku feðraveldissamfélagsgerðinni (og ekki einu sinni reyna að andmæla þessu síðasta, skoðið bara kynjahlutföllin í þingflokknum) sem við búum við í dag. Flokkurinn hefur svo gott sem verið óslitið við völd frá stofnun lýðveldisins. Hann skapaði ekki bara kerfið, hann er kerfið. Og við breytum ekki kerfinu með málamiðlunum við það sjálft. Við byltum ekki með því að halda ríkjandi öflum við völd,“ skrifaði Gísli.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: