- Advertisement -

Asnaspark í Eyjum

Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson skrifar:
Í ósigri halda þeir stjórnmálamenn lífi sem sýna æðruleysi, gefast ekki upp, og láta nægja að gráta eina nótt. Svo rísa þeir upp með morgunsólinni og gera nýtt plan. Þeir sem ætla að halda áfram í stjórnmálum fara ekki í hefndarleiðangur, og þeir halda spælingunni fyrir sjálfan sig.

Elliði, vígamaður úr Eyjum sem féll í heimatilbúna pólitíska gröf, brýtur allar þessar reglur. Hann makar spælingunni yfir allt umhverfið, og dregur úr möguleikum á endurkomu með því að siga heimavarnarliðinu á Pál Magnússon. Um leið tryggir hann að Páll Magnússon mun gera allt sem hann getur, og fara eldi og brennisteini um allar Eyjar og miðin, til að tryggja að núverandi meirihluti haldi í kosningunum eftir fjögur ár.

Páll er ættstór, vinmargur, og á glæsta fjölskyldusögu í Eyjum. Hann er í uppeldi sem arftaki Davíðs á ritstjórastóli, og hefur passað upp á að vera sægreifamegin í lífinu. Sægreifarnir eiga náttúrlega Moggann með skagfirska efnahagssvæðinu. Elliði gæti lent í því að hafa bæði Pálsliðið dýrvitlaust á móti sér og Moggann í öðru liði þegar kemur í næsta slag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjálfur minnist ég þess að núverandi bæjarstjóri í Eyjum var varla búin að vera korter sem varaþingmaður á Alþingi þegar hún réðst á blíðlyndan og hrekklausan utanríkisráðherra fyrir það eitt að vilja vakna á morgnana innan ESB. Öfugt við Elliða lifði ég af viðureignina við Írisi bæjarstjóra.

Óttinn við prófkjör hefur margan manninn drepið í stjórnmálum. Elliði er ekki sá fyrsti. Sumir hafa þó náð því að rísa upp og ganga aftur. Elliði hefur torveldað sína eigin afturgöngu með því að láta reka Pál ræfilinn úr hópi hinna innmúruðu. Það var asnaspark.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: