- Advertisement -

Aumingja við að þurfa að láta drepa svona mikið í okkar nafni

Kristinn Hrafnsson:

Við kyngjum blóðflauminum með jólasteikinni og látum ekkert trufla gleðina, síst af öllu sönggleðina og fótboltagleðina. Ekki tíu þúsund dáin börn, né heldur hin sem tóra, móðurlaus, föðurlaus, útlimalaus, svöng, grátandi, hrædd.

Allur heimurinn liggur nú á Bandaríkjamönnum að fallast á samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í eyðingarstríði Ísraels gegn Palestínsku þjóðinni. Ísraelar einir þjóða leggja að Bandaríkjamönnum að beita neitunarvaldi – enn og aftur.

Biden forseti er lengi að hugsa og á meðan hann finnur réttu orðin til að setja í tillöguna um að stöðva þjóðarmorðið („fordæmum Hamas“, „Ísrael hefur rétt til sjálfsvarnar“) heldur Ísrael áfram að fremja stríðsglæpina sína, í gær í beinni útsendingu á Al-Jazeera þar sem hetjulegi herinn hans sprengdi upp íbúðablokk og mosku við hliðina á einu af fáum starfshæfum sjúkrahúsum syðst á Gaza, í Rafah (sem Gazabúum hafði verið skipað að hópast til, enda „öruggt“ svæði).

Nei bíðum aðeins með þetta, segir Biden við allan heiminn, því Biden þarf að heyra í Bíbí og hafa hann með í ráðum. Skottið dillar hundinum – framan í allan heiminn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á Íslandi er ekki til sjálfstæð opinber samviska, heldur fjarstýrt hagsmunatengt tilfinningaviðbragð.

Katrín Jakobsdóttir er löngu búin að gleyma því að hún var einu sinni í pólitík…

Blóðflóðið frá tíu þúsund börnum átti ekki að stöðva forkeppni Eurovision í Ísrael, þvert á móti átti að nota blóðið í glansatriðin.

Á Íslandi er ekki til sjálfstæð opinber samviska, heldur fjarstýrt hagsmunatengt tilfinningaviðbragð. Meira að segja RÚV er að bíða eftir því að verða sagt hvað því á að finnast um þjóðarmorð og hvort það sé ekki alveg örugglega í lagi að syngja glaðlega með barnadrápsvélinni á Eurovision. „Við erum ekki í póilitík“, segir útvarpsstjóri og hrisstir blóðslettur barnanna af glimmergallanum.

Heimsins böl, helg er sú kvöl.

Kollegi hans í Ísrael er sannarlega í pólitík, hins vegar og kynnir forkeppni Eurovision þar í landi sem upphafningu á hetjuverkum Ísraelshers. Allir keppendur koma fram í herbúningum og dómararnir líka. Útsendingu á fyrsta þætti forkeppninnar var frestað vegna sorgar yfir því að Ísraelsher slátraði þremur af eigin hermönnum þó svo þeir kæmu fram berir að ofan, veifandi hvítum friðarfána, hrópandi á hebresku. Blóðflóðið frá tíu þúsund börnum átti ekki að stöðva forkeppni Eurovision í Ísrael, þvert á móti átti að nota blóðið í glansatriðin.

Ísraelski herinn er fulltrúi Ísraels í Eurovision en íslenski útvarpsstjórinn sér það ekki og segist bara alls ekki vera í pólitík. Hann er studdur af stjórn sem neitar meira að segja að ræða þetta, svo upptekin er hún af því að vera ekki í pólitík. Katrín Jakobsdóttir er löngu búin að gleyma því að hún var einu sinni í pólitík og sagði síðast þegar hundruð börnum var slátrað á Gaza, fyrir nokkrum árum að heimsbyggðin gæti ekki setið aðgerðarlaus hjá, situr nú aðgerðarlaus hjá og bíður, bíður eins og Bjarni Ben bíður, bíður eftir Biden sem bíður eftir leyfi frá Bíbí sem langar ekkert að hætta að drepa börn því hann veit að ef hann hættir því er hann búinn að vera í pólitík heima hjá sér.

Allur heimurinn nema Benjamín Netanyahu segir stopp en hann hefur engin handbær rök lengur nema tilvitnun í að Guð hafi gefið honum leyfi til að drepa börn. Fullt af þeim.

Afstæður heimsins eru grímulausar – nei allsnaktar. Og bráðum koma jólin þar sem því er fagnað að einu sinni fæddist alhvítt undrabarn í Palestínu, okkar dísus kræst sem á ekkert skylt við þessi tíu þúsund drepnu Gazabörn sem hafa endað sem hvítir pakkar grafnir við strönd Miðjarðarhafsins.

Við kyngjum blóðflauminum með jólasteikinni og látum ekkert trufla gleðina, síst af öllu sönggleðina og fótboltagleðina. Ekki tíu þúsund dáin börn, né heldur hin sem tóra, móðurlaus, föðurlaus, útlimalaus, svöng, grátandi, hrædd.

Aumingja við að þurfa að láta drepa svona mikið í okkar nafni. Í nafni guðföðurs Hvíta hússins og heilags anda hergagnaiðnaðarins. Heimsins böl, helg er sú kvöl.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: