- Advertisement -

Beinbrotinn sjúklingur sendur heim

- fyrrverandi heilbrigðisráðherra undrandi á meðferð sjúklings. Með öllu óásættanlegt.

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.
„…og hún var með brákaðan hryggjarlið…“

„Kona sem ég þekki vel til varð fyrir alvarleglu áfalli í ofsaroki sem gekk yfir landið í janúar s.l. Hún fauk og féll svo illa að hún hlaut af mjaðmagrindarbrot,“ þannig skrifar fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðmundur Bjarnason.

Hann segir konuna hafa dvalið á Landspítalanum í tvær vikur. „Þegar hún gat loks aðeins hreyft sig, þrátt fyrir miklar þrautir, var hún tafarlaust send heim án frekari skoðunar eða myndatöku. Síðan þá, eða í rúma þrjá mánuði hefur ástandið bara versnað, hún haldið sér gangandi með sterkum verkjalyfjum og mest verið bundin við rúmið. Þegar ásandið var orðið óþolandi bað hún heimilislækni sinn að senda sig í myndatöku.“

Við myndirnar kom í ljós að konan var brotin beggja vegna á mjaðmagrindinni vinstar megin, meir en áður var talið og hún var með brákaðan hryggjarlið, og brotin öll enn opin eftir þrjá mánuði og farið að bera á lömun niður í vinstri fótinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það kom vissulega á heimilislækninn, er hann sá myndirnar, og skrifaði hann tafarlaust athugasemdabréf til LSH, – en lét þess jafnframt getið við konuna að hann vissi ekki hvað, eða hvort, eitthvað kæmi út úr því. Og hvað þá, – á hún bara að vera áfram í rúminu sínu heima, án allrar aðstoðar og reyna að halda þrautum sínum niðri með verkjalyfjaáti?“

Guðmundur heldur áfram. „Auðvitað á hún tafarlaust að fá innlögn á sjúkrahús og alla þá hjálp sem mögulegt er að veita. Allan þennan tíma hefur henni verið lofað að sjúkraþjálfari kæmi heim til hennar en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hefur aldrei orðið af því. Einnig hefur því verið lofað að hún fengi heimilishjálp (þrif) en aldrei verið staðið við það heldur, í þrjá mánuði. Sjálf hefur kona þessi varið mestum hluta starfsæfinnar við umönnun sjúkra og aldraðra af mikilli alúð og hlotið afar góða umsögn allra sem notið hafa þjónustu hennar. Á hún þá þetta skilið af okkar „frábæra“ heilbrigðis- og velferðarkerfi þegar hún sjálf þarf nauðsynlega á því að halda? Nei, þetta er auðvitað með öllu óásættanlegt og verður að bregðast við tafarlaust,“ skrifar heilbrigðisráðherrann fyrrverandi, Guðmundur Bjarnason.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: