- Advertisement -

Bjarni er ekki stórmenni í stjórnmálum

Atli Þór Fanndal skrifaði:

Sigríður Dögg Auðunsdóttir var alveg stórkostleg í Kastljósinu. Það á ekki að láta ráðherra komast upp með að þvæla málum og framleiða upplýsingaóreiðu. Það á ekki að tíðkast að ráðherra setji skilyrði fyrir því að mæta til fjölmiðla og enn síðar eiga fjölmiðlar að samþykkja slíkt án þess að það komi fram. Stundum er ekki annað í boði – eins og hjá RÚV í kvöld – og þá á að opinbera að viðtalið er veitt með skilyrðum t.d. um hverjir fái að sitja við borðið. Keisarinn er nakinn og Sigríður Dögg er sú sem benti á það.

Bjarni hefur þó alltaf gert þessa kröfu. Hann er nefnilega ekki stórmenni í stjórnmálum heldur umvafinn bómull. Þess vegna birtist hann almennt ekki með öðrum í viðtölum. Sigríður Dögg stóð með faglegheitum og æru með því að láta það ekki ónefnt að formaður Sjálfstæðisflokksins mæti ekki nema gengið sé að kröfum hans.

Bjarni er nefnilega ekki sterkur stjórnmálamaður. Svona kröfur gera bara aumir menn. Hann er bara umkringdur meðvirku fólki.

Sjálfur á ég svona sögu og fleiri. Það er rétt að allir deili þeim. Skora á alla að greina frá því hvernig stóðin í kringum Bjarna kemur í veg fyrir að hann þurfi að mæta almenningi.

Árið 2012 tók ég viðtal við alla formenn flokka með fulltrúa á Alþingi vegna þess að það sem þá taldist einstaklega átakamikið kjörtímabil var að ljúka. Bjarni neitaði að tala við DV en þó ekki fyrr en spunaklasinn í kringum hann hafði reynt að semja um að alls ekki væri spurt um ákveðin mál (VAFNING). Ég hafði satt að segja engan áhuga á að afsala mér ærunni sem blaðamanni og gefa lesendum málefnalega ástæðu til að vantreysta mínum skrifum með því að semja um að hunsa risavaxið spillingamál svona svo Bjarna liði nú ekki óþægilega. Það er fullkomlega galið og ósiðlegt að semja um að spyrja fólk í áhrifastöðum ekki ákveðinna spurninga. Viðmælandinn verður bara að neita að svara ef hann telur það réttara. Til að útskýra fjarvist Bjarna, einan stjórnmálaleiðtoga, í stórri röð viðtala var svo skrifuð frétt um hvers vegna Bjarni væri ekki með. Svo koma, eins og alltaf þegar skrifað er um Sjálfstæðisflokkinn með hætti sem þeim ekki líkar, símtalið frá flokkshollum. Ég nennti ekki að hlusta og tók eitt ánægjulegasta öskurkast sem ég hef tekið á fótgönguliða valdsins. Við höfum ekki rætt saman eftir það mér til mikillar ánægju.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: