- Advertisement -

Einar er í Valhallarsjónvarpi

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Ég horfði á Kastljós og fannst Sólveig Anna ná að koma sínu fram þrátt fyrir gjamm í Sjálfstæðisflokksmönnunum tveimur, undraði mig svolítið á að hún hafi látið bjóða sér svona set-up hjá RÚV eftir að viðsemjandi hennar, Dagur B. Eggertsson, hafði fengið drottningarviðtal í Silfrinu. En líklega er það svo að konur fá ekki drottningarviðtöl hjá RÚV, alla vega ekki vinstri sinnaðar konur. Það er þekkt taktík hjá hægrinu að senda einhvern inn í umræðuna sem ekki á neitt sérstakt undir, einhvern sem getur kastað fram alls kyns rangindum og þvælu, vegna þess að hann þarf ekki að hitta viðmælandann eða standa við orð sín á nokkurn hátt í framhaldinu. Halldór Benjamín var í þessu hlutverki í kvöld. En Sólveig Anna stóð þetta af sér með glans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einar ritar sextán línur eftir Halldóri og sex línur eftir Sólveigu Önnu; flokksfélagi hans fær 3/4 fréttarinnar en konan sem hann skilgreinir sem pólitískan andstæðing 1/4.

Svo fór ég í bíó. Þegar ég kom heim sá ég þessa frétt eftir Einar Þorsteinsson, sérstakan fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá RÚV, einn af æði mörgum. Hann skrifar þvæluna úr Halldóri Benjamín og setur hana inn sem fyrirsögn, eins og hún væri stórtíðindi. Einar ritar sextán línur eftir Halldóri og sex línur eftir Sólveigu Önnu; flokksfélagi hans fær 3/4 fréttarinnar en konan sem hann skilgreinir sem pólitískan andstæðing 1/4.

Auðvitað hefur allt hugsandi fólk séð í gegnum Einar Þorsteinsson fyrir löngu, það er skömm að ekki sé búið að reka hann frá RÚV. Það er ólíðandi að fréttafólk haldi trúnað við einhverja valdaklíku út í bæ og svíki þar með áhorfendur í umfjöllun sinni aftur og aftur. En RÚV er gerspillt stofnun þar sem Sjálfstæðisflokksfólk veður uppi. Einar er því látinn sjá um kosningasjónvarp, kappræður og viðtöl við forystufólk, þótt hann hafi margsýnt að þar er hann ekki í hlutverki fréttamanns heldur sem senditík Sjálfstæðisflokksins.

En þó fólk sjái í gegnum svívirðu Sjálfstæðisflokksins, hvernig þessi klíka sveigir Ríkisútvarpið að eigin þörfum og hagsmunum, eins og flest allar stofnanir í landinu sem starfa eiga að almannaheill, þá er þetta náttúrlega ekki liðandi. Hversu lengi ætlar fólk að láta bjóða sér þetta? Nú þegar búið er að ráða enn einn Sjálfstæðisflokksmanninn sem útvarpsstjóra næstu fimm árin, er ljóst að þetta á eftir að versna enn. Á vakt síðasta útvarpsstjóra, sem bláeygt fólk reyndi að sannfæra sig um að væri óháður menningarsinnaður maður, var Kastljós gert að kláru Valhallarsjónvarpi, flokksbundið Sjálfstæðisfólk sett inn í Silfrið og þáttur búinn til fyrir Gísla Martein, svo hann gæti tekið viðtöl við ráðherra Sjálfstæðisflokksins og reynt að sannfæra almenning um að þetta væri skaplegt fólk. Næsti útvarpsstjóri Sjálfstæðisflokksins mun herða enn á þessum skrúfum. Sjálfstæðisflokkurinn er í vörn, fylgi hans hrörnar hratt eftir því sem augljósar verður að þessi fyrrum breiðfylkingin er í dag þröng hagsmunaklíka utan um allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna. Flokkurinn ætlar því að tryggja sér að öll umfjöllun RÚV fyrir næstu þing- og sveitarstjórnarkosningar verði samkvæmt forskrift flokksins.

Hversu lengi ætlar fólk að láta bjóða sér þetta? spyr ég aftur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: