- Advertisement -

Eiríkur er það sem kalla mætti elítískan popúlista

Gunnar Smári skrifar:

Hér er fréttaskýring frá hinni svokölluðu frjálslyndu miðju. Eiríkur greinir fylgistap Samfylkingar að undanförnu út frá meintri vinstri beygju flokksins, og af þeim sökum séu Viðreisn og Píratar í góðum málum, án samkeppni á svokölluðu frjálslyndu svæði. Og hann dregur fram stöðu borgarstjórnarflokks Samfylkingar, sem mælist vel í nýlegri könnun (eins og vanalega á miðju kjörtímabili reyndar, þegar fáir eru að hugsa um valkosti í borginni). Skilaboð Eiríks eru að Logi eigi að beygja aftur til hægri, að kjósendur séu að refsa honum fyrir vinstrigælur. Og Eiríkur bendir til Sjálfstæðisflokksins í borginni þar sem áherslan hefur verið lögð á sperringslega hægrimennsku, að slíkt hjálpi Sjálfstæðisflokknum ekkert frekar en vinstri derringur hjá Samfylkingunni. Kenning greinarinnar er að framtíð íslenskra stjórnmála sé Gísli Marteinn, Dagur og Hjálmar Sveinsson.

Þetta má vanalega lesa úr greiningum Eiríks. Hann talar fyrir elítustjórnmálum byggðum á efnahagsgrunni nýfrjálshyggjunnar, ræðir aldrei stéttabaráttu, arðrán eða auðvald; hafnar slíku sem áhrifaþætti en ræðir stjórnmálin sem vígvöll þar sem hin siðprúðu og góðu, menntuðu og réttlátu berjast við öfgafólk til hægri og vinstri, einskonar miðaldaöfl sem risið hafa upp þótt fyrir löngu væri búið að tilkynna um endalok sögunnar.

…gersamlega út í bláinn.

Eiríkur er það sem kalla mætti elítískan popúlista; hann skiptir veröldinni í við (hin menntuðu, góðu og siðprúðu) og hin (öfgafólk sem ræðst að „okkur“ frá hægri og vinstri), boðar einfaldar patent lausnir við öllum vanda (ESB, evra, borgarlína), talar fyrir að pólitíkin eigi að snúast um tæknilegar útfærslu undir elítunni fremur en ekki átök ólíkra stétta eða hópa.

Þessi elítíski popúlismi er á góðri leið með að eyðileggja alla stjórnmálaumræðu. Þeim sem aðhyllast hann ganga langt í afmennskun ímyndaðra og raunverulegra andstæðinga, ætla þeim allskyns syndir og uppnefna. En mesti skaðinn er auðvitað að allar niðurstöður sem koma út úr þessum ranni eru gersamlega út í bláinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: