- Advertisement -

Fjárlögin: Hvar er verkalýðsforystan?

Verð að segja að þetta veldur verulegum vonbrigðum.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Hefur verkalýðshreyfingin kynnt hinum vinnandi stéttum áhrif nýs fjárlagafrumvarps á efnahag heimilanna? Hefur verið útskýrt fyrir grasrótinni hver útkoman er miðað við þann lífskjarasamning sem samþykktur var í vor? Hafa verkalýðsfélögin og samtök launafólks reiknað út hvaða áhrif frumvarpið hefur á afkomu fólks og sýnt það með dæmum? Hefur grasrótin yfirleitt verið upplýst um nokkurn hlut eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram? Ég hef ekki orðið var við það. Efling hefur sent frá sér einhverjar línur. Ekkert á heimasíðu VR. Og ekkert sést á heimasíðu ASÍ.

Verð að segja að þetta veldur verulegum vonbrigðum. Fólk veit lítið sem ekkert hvaða áhrif frumvarpið mun hafa á afkomuna. Maður skynjar mikla óánægju og óvissu. Allt í einu kom í ljós veruleg hækkun á ýmsum sköttum sem geta haft mikil áhrif á heildarútkomu tekna heimilanna. Og veggjöldin. Og lækkun persónuafsláttar. Fólk veit ekkert hvernig fjárhagurinn veður á næstunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samkvæmt töflu 3 um tekjur ríkisins sem fylgir fjárlagafrumvarpinu fyrir 2020 hækka alls konar skattar. Grænir skattar hækka sem er vel en það breytir ekki því að þeir hafa áhrif á heildarafkomu launafólks. Frá því sem sagt var fyrir um í fjárlögum 2019 og það sem nú kemur í frumvarpinu fyrir 2020 hækka eftirtaldir skattar svona:

  • Kolefnisgjald hækkar um 6%
  • Olíugjald um 4,1%
  • Áfengisgjald um 2,5%
  • Tóbaksgjald um 1,7%
  • Aðrir umhverfisskattar( ótilgreint) um 49,9%
  • Sértækir þjónustuskattar (ótilgreint) um 38,9%
  • Kílómetragjald um 4%
  • Bifreiðagjald um 12,5%
  • Gjald í framkvæmdasjóð aldraða um 4,3%
  • Útvarpsgjald um 3,5%
  • Ýmsir aðrir skattar 12,7%

Þetta er stór biti. Þetta eru bara nokkur dæmi. Og eins og fyrr segir eru það veggjöldin. Svona skattar bitna auðvitað mest á þeim sem lægri launin hafa.

Ég skora hér með á verkalýðshreyfinguna að sinna grasrótinni. Félögunum sem hafa treyst forystunni til að vernda hagsmuna sína og upplýsa um hvernig kaupin gerast raunverulega á eyrinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: