- Advertisement -

Forysta flokkanna er ekki ígildi almennings

Gunnar Smári skrifar:

Lýðræðið er margflókin skepna og það er misskilningur að ætla að tryggja það með því að ætla að fela þeim flokkum sem sitja á þingi að gæta þess.

Þetta á við um fjáraustur flokkanna úr ríkissjóði í eigin fjárhirslur, þær tryggja ekki lýðræði heldur geta lamað það innan flokka þar sem forystan fær í raun fé til að verja sig gegn grasrótinni. Forystan verður óháðari grasrótinni um félagsgjöld og sjálfboðavinnu, forystufólkið getur keypt sér stuðningu og þjónustu. Og þar með getur fjárflutningur frá almannasjóðum til forystu flokkana brotið niður lýðræði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er því ríki í ríkinu.

En þetta á líka við um stofnanir á borð við Ríkisútvarpið. Það tryggir ekki lýðræðið innan þess að forysta flokkanna sendi inn í stjórn stofnunarinnar sitt trúnaðarfólk. Forysta flokkanna er ekki ígildi almennings, þvert á móti samgróinn hluti valdsins. Það er ekki góð leið til að þróa og byggja upp Ríkisútvarpið að fela skósveinum forystu flokkanna að stýra henni.

Ég ætla að taka dæmi af National Trust í Bretlandi. National Trust er falin varsla náttúru- og söguminja á Bretlandseyjum, uppbyggingu ferðamannamiðstöðva við þær, kynningu og menntun um minjarnar o.s.frv. Þetta er sjálfstætt félag ótengt ríkisvaldinu og er stjórnað af fulltrúaráði sem að hálfu er skipað eftir tilnefningu ráðsins sjálfs og að hálfu eftir tilnefningu frá öðrum almannasamtökum sem starfa á vegum náttúruverndar og sögu. Þetta er því ríki í ríkinu, viðheldur sjálfum sér svipað og á við um akademíur víða um heim, en er jafnhliða með tengingu út í þau samtök sem láta sér málin varða. Hefð og kúltúr félagsins sjálfs er því viðhaldið, það er gert ráð fyrir að innan þess sé menning sem er gjöful og sterk, en jafnframt er tryggð endurnýjun svo fulltrúaráðið verði ekki með tíð og tíma einsleitur hópur fólks sem er sammála um allt.

National Trust hefur tekist að byggja glæsilega aðstöðu við mikinn fjölda ferðamannastaða á Bretlandseyjum. Kosturinn við að halda uppbyggingu slíkra staða á einni hendi er sá að rekstrartekjur af bílastæðum og móttökumiðstöð við Stonehenge gefur fé til að byggja upp sambærilega aðstöðu annars staðar. Þegar ég ferðaðist um Skotland og Norður-Írland fyrir nokkrum árum bar ég saman byggingarkostnað móttökumiðstöðva við fjölda gesta á ári og fékk út að með þessu fyrirkomulagi mætti reisa um 6-7 milljarða króna móttöku við Þingvelli, um 4 milljarða króna gestastofu við Seljalandsfoss og nokkuð dýrari við Jökulsárlón.

Ríkisútvarpið væri þá sjálfseignarstofnun.

Hægt er að ganga í National Trust og styðja þar með starfið. Á móti félagsaðild kemur afsláttur að þjónustunni sem félagið veitir þannig að aðildin er í reynd ekki fjáröflun heldur frekar leið til að landsmenn greiði minna en ferðamenn, svipað og gert er með ársmiðum í vatnastrætó í Feneyjum (ársmiðinn kostar, ef ég man rétt, aðeins meira en stakir miðar í tveggja daga dvöl ferðafólks). Svona gjaldtaka með ríkulegum afslætti til þeirra sem nota þjónustuna meira er því illa dulbúinn ferðamannaskattur.
Ég held að einhvern veginn svona fyrirkomulag myndi henta Ríkisútvarpinu eins og fleiri stofnunum ríkisins. Ríkisútvarpið væri þá sjálfseignarstofnun sem við gætum ef til vill kosið í byrjun hálft fulltrúaráðið á móti tilnefningu almannasamtaka; svo sem verkalýðshreyfingarinnar, neytendasamtaka, tónlistar- og listamannafélaga, fræðafélaga o.s.frv. Fulltrúaráðinu yrði síðan falið að byggja upp og varðveita góðan kúltúr í kringum stjórnun Ríkisútvarpsins; ráða lykilstjórnendur, setja stofnuninni menningarleg og rekstrarlega markmið, rannsaka notkun almennings á dagskránni og hvernig hún þjónar ólíkum hópum landsmanna o.s.frv.

Í raun mætti nota sömu aðferð til að halda utan um Tryggingastofnun ríkisins (fulltrúar öryrkja, eftirlaunafólks, verkalýðsfélaga í stjórn), Landspítala (fulltrúar heilbrigðisstétta, sjúklinga og aðstandenda í stjórn), grunnskóla (fulltrúar nemenda, kennara og foreldra í stjórn) o.s.frv. Þetta er mikilvægt, ekki síst þegar tilhneigingin er sú að svokallaðir fulltrúar atvinnulífsins, sem í reynd eru fulltrúar auðvaldsins, hafa verið settir inn í stjórnir marga mikilvægra stofnana, ekki síst menntastofnana, meira að segja yfir Háskóla Íslands. Lýðræði þroskast best í valddreifingu þar sem valdamiðstöðvar eru margar og ólíkar, þar sem þátttaka almennings er fjölþætt og möguleikar fólks til áhrifa fjölbreytilegir, ekki bara í gegnum valdastrúktúr stjórnmálaflokka, sem í dag eru fámennar klíkur sem náð hafa til sín fé úr opinberum sjóðum til að verja völd sín.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: