- Advertisement -

Hætti á sjónum og framleiðir nú tískuvörur úr fiskiroði

Viðtal Þegar Ágústa Margrét Arnardóttir var á sextánda ári 1994 að alast upp á Hornafirði og vann í frystihúsinu hjá Borgey fannst henni eiginlega glórulaust að vinna þar fyrir þau laun sem voru í boði. Hún og vinkona hennar fóru því í einum kaffitímanum út í Silfurnes SF og báðu Grétar Vilbergs. skipstjóra um að taka þær með í einn túr sem gesti. Grétar tók þeim fagnandi og bauð þær velkomnar um borð. Þetta varð byrjunin á sjómennskunni hjá henni en stuttu seinna fór Ágústa yfir á frystitogarann Andey og var þar í tvö sumur, 15 og 16 ára gömul og kunni vel við sig.

 Tilbreytingalaust líf á frystitogara

„Mér fannst þetta nú samt frekar tilbreytingalaust þarna í frystingunni á Andey en það lagaðist aðeins þegar við fórum í Smuguna meðan deila um hana við Norðmenn stóð yfir. Smá ævintýraljómi var yfir því , sérstaklega þegar tveir norskir gæsluliðar voru látnir síga til okkur um borð úr þyrlu síðasta dag túrsins. Norðmennirnir vildu meina að veiðar okkar væru ólöglegar og mögulega yrði skipið látið sigla til Noregs. Gæslumennirnir tveir voru hjá okkur í nokkra klukktíma og mér, 15 ára sjóstelpunni fannst þetta súper sætir gæjar. Ég vonaði því hálfpartinn að við myndum sigla til Noregs í stað þess að fara heim enda hafði ég heyrt af ævintýrunum í siglingum íslenskra sjómanna til Hull og Grimsby áður fyrr. Mér varð nú ekki að ósk minni og okkur var tjáð að við mættum  fara heim. Í sárabót fékk ég koss frá sætari gæslugæjanum sem bjargaði auðvitað alveg lífinu hjá mér 15 ára sjóstelpunni í Smugunni.“

Eftir þetta var Ágústa Margrét meira og minna til sjós með námi eða í fullu starfi. „Ég var á nokkrum bátum fyrir austan, var t.d. vaktformaður á línuveiðurunum Melavík og Garðey, vinnslustjóri á frystitogaranum Sunnutindi SU og háseti á netabátnum Hafdís á þremur frábærum vertíðum. Ég lauk svo sjómannsferlinum, í bili, á trillunni Daðey frá Grindavík sem þá var gerð út frá Djúpavogi. Ég var þar um borð þar til um miðjan desember fyrir nákvæmlega átta árum en tíu mánuðum síðar eignaðist ég mitt fyrsta barn og ákvað að leggja sjóstakkinn á hilluna….. í bili.“ Ágústa segist alltaf hafa verið mikið fyrir handverk og hún hafi búið til töskur, fatnað, innanstokksmuni og skraut meðan hún var á sjónum auk þess að prjóna, hekla og sauma. Hún fór í Iðnskólann í Hafnarfirði árið 2003 þá orðin 25 ára og bjó þar til lampa, ljós, púsl og fleira. „Á þessum árum keypti ég fyrst sútað laxaroð og heillaðist algjörlega af þessu ótrúlega hráefni.“ Þar með var framtíðin ráðin hjá henni. „Alveg frá því ég sá og snerti sútað fiskroð í fyrsta sinn varð ég heilluð af því. Ég keypti fyrst lítilsháttar af  því í heildverslun í Reykjavík og tímdi varla að vinna úr því. Samt prófaði ég mig áfram og sá að í þessu voru endalausir möguleikar. Eftir tveggja ár Iðnskólanám fór ég svo til Ítalíiu og lærði þar skó- og fylgihlutahönnun með það í huga að vinna í framtíðinni tískuvörur úr fiskiroði og fleiru,“ segir Ágústa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

 Kynntist manninum á sjónum

Þegar Ágústa var um borð í Sunnutindi frá Djúpavogi kynntist hún manninum sínum, Guðlaugi Birgissyni. „Við vorum síðar saman á Hafdísinni og á trillu. Þegar ég kom heim frá Ítalíu ákváðum við að setjast að í heimabæ hans Djúpavogi og eignast fullt af börnum. Hans fólk er allt á Djúpavogi og hér er hann í sinni draumvinnu, er skipstjóri og útgerðarmaður auk þess að reka kafaraþjónustu með félaga sínum og vera í slökkviliðinu. Okkur finnst forréttindi að geta starfað við það sem okkur finnst skemmtilegast og börnin eru orðin þrjú; fjögurra, fimm og sjö ára. Hér á Djúpavogi var nú ekkert starf að hafa fyrir skó- og fylgihlutahönnuð á þeim tíma og engin verslun heldur sem seldi sérvörur. Ég stofnaði því einkahlutafélagið Arfleifð ehf. sem er hönnunar- og framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á töskum, fylgihlutum og fatnaði úr íslenskum hráefnum. Síðustu sjö árin hef ég svo unnið að uppbyggingu þessa fyrirtækis.“ Ágústa notar karfa,- hlýra,- laxa,- og þorskroð í sína framleiðslu. Hún segir þau öll hafa sína sérstöðu. „Karfinn er grófastur með stærstu hreysturvasana, laxinn er með millistóra hreysturvasa og þorskurinn er með minnstu hreysturvasana, í senn grófur og fínn. Hlýrinn er svo alveg sléttur en sérkennin eru doppurnar. Um leið og ég fæ skammt af roðum kannski svona 300 st. í einu, skipti ég þeim upp eftir tegundum, litum, stærð og þykkt. Núna eftir margra ára vöruþróun vitum við mjög vel hvaða roð fer best í hvað.“

Fær hreindýra og selshúðir frá veiðimönnum

Handtöskur í mörgum stærðum og gerðum fyrir dömur eru meginframleiðsla Arfleifðar. „Svo gerum við líka belti, armbönd, kraga, seðlaveski, pils, toppa og ýmislegt annað fyrir konur. Í gegnum tíðina höfum við gert lítilsháttar af herravörum en alls ekki af áhugaleysi, heldur tímaleysi. Stefnan er þó að setja leður- og skinnfatnaðinn í pásu árið 2014 og vinna meira í herralínunni, gera þá tölvutöskur, bakpoka, snyrtibuddur, peninga- og kortaveski, belti, armbönd og fleira.“ Sjávarleður og Loðskinn á Sauðárkróki súta öll skinn fyrir Arfleifð. „Fiskiroð og kindaskinn koma frá fiskvinnslum og sláturhúsum en ég er í miklu og góðu sambandi við veiðimenn og fæ hreindýra- og selshúðir beint frá veiðimönnum, ég (eða öllu heldur maðurinn minn) setjum húðirnar í frost, sendum á Sauðárkrók og fáum þau svo tilbúin til okkar, lituð og með þeirri áferð sem við óskum eftir.“

 Upprunavottun liggur fyrir

Með þessu ferli getum við upprunavottað öll hráefnin „Við erum líklega eina, eða eitt af mjög fáum fyrirtækjum í heiminum, sem getur upprunavottað hvaðan öll hráefnin koma. Við notum bara íslenskar aukaafurðir frá matvælaframleiðslu og notum engin dýr sem alin eru við illar aðstæður. Við fáum öll okkar leður og skinn hér á Íslandi og erum að auka verðgildi afurðanna sem unnin eru hér á landi til manneldis. Kannski bara ofur smátt núna en þegar við erum farin að kaupa nokkur þúsund fiskiroð á ári hlýtur það að telja.“

Ágústa segir vöxt í fyrirtækinu sínu og er bjartsýn á framhaldið. „Arfleifð er ört vaxandi fyrirtæki, sem ég sé fyrir mér að geti vaxið og dafnað mjög vel. Frá því í maí á þessu ári hafa starfsmenn verið þrír og nú er fyrirséð að við verðum allar áfram árið 2014 og tveir hönnunarnemar frá Danmörku, sem ætla að taka starfsnámið sitt hjá okkur, bætast svo við í febrúar. Þá verðum við fimm og ég get ekki líst því hvað ég er spennt og ánægð með það. Mér finnst skipta svakalegu máli að skapa atvinnu og byggja upp eitthvað hér á landi. Ég hef endalausa trú á Arfleifð. Með aukinni reynslu og þekkingu eftir sjö ára hörku puð og púl vitum við betur hvað er vinsælt, hvað virkar og hvað ekki. Framleiðslugetan hefur aukist gríðarlega, sem og salan. Salan er samt árstíðarbundin og eru erlendir ferðamenn langstærstu kaupendur. Sem þýðir að júní og júlí er æði en í október og janúar er nánast engin sala. Þannig að þetta er nokkurs konar vertíðarvinna, framleiðslubrjálæði í janúar- maí og október-nóvember síðan sölubrjálaði um sumar og þegar nær dregur jólum. Til að byrja með í rekstri eru þessar sveiflu á innkomu erfiðustu hjallarnir en eftir því sem árssalan eykst er auðveldara að fleyta sér yfir dauðu mánuðina. Við erum að auka söluna til Íslendinga jafnt og þétt ár frá ári, sérstaklega til karlmanna sem kaupa þetta sem gjöf fyrir sína nánustu. Þannig að þetta verður alltaf örlítið auðveldara með tímanum en tekur tíma að byggja upp eins hvert annað fyrirtæki.“

 Afurðirnar seldar um allt land

Ágústa og þær stöllur í Arfleifð bjóða upp á tvær vörulínur fyrir konur. „Þær köllum við Klassík og Lúxus og þær eru báðar mjög vinsælar en við gerum mun færri vörur í Lúxus línunni, það eru dýrari vörur og eingöngu unnar úr íslenskum hráefnum. Í klassík línunni blöndum við stundum leðurlíki við og höldum okkur við einfalda og fljótlega hönnun, þannig getum við boðið upp vörurnar á mjög góðu verði td. armbönd, belti og töskur á verðbilinu 3.000-21.000 kr. Sem er ekki mikið miðað við vinnuna, hráefnin og notagildið. Í lúxuslínunni eru flóknari vörur með alls konar „lúxus“ t.d. armtaska sem breytist í bakpoka, töskur sem lokað er með hreindýrshorni og skreyttar með hrosshárum og ýmislegt annað.“ Vörurnar frá Arfleifð má svo nálgast á ýmsan hátt. „Þær fást í sérverslun Arfleifðar á Djúpavogi, sem og í verslunum á Hornafirði, Sauðárkróki og Reykjavík. Vöruúrvalið og allar upplýsingar eru á www.facebook.com/arfleifd einnig eru upplýsingar á www.arfleifd.is og við bjóðum upp á persónulega ráðgjöf og aðstoð við gjafakaup fyrir þá sem eru óvissir með hvað skal kaupa eða finnst leiðinlegt að kupa inn gjafir. Við fáum upplýsingar um frúnna, kærustuna, mömmuna, ömmuna, dótturina eða vinkonuna og finnum út í sameiningu hvað hentar henni. Vöruúrvalið er svo fjölbreytt að við ættum að geta fundið eitthvað sem slær í gegn fyrir allar konur, sama hvort það sé áberandi eða hlédræg týpa, stór eða smá kona, litrík eða dökk og þessháttar. Allt þetta skiptir máli og partur af rekstri okkar er aðstoða alla og finna réttu vöruna,“ segir fyrrverandi sjómaðurinn og núverandi hönnuður og iðnrekandi á Djúpavogi, Ágústa Margrét Arnardóttir.

Texti Haraldur Bjarnason, Útvegsblaðið. 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: