- Advertisement -

Höfum ekki fengið eitt einasta símtal eða póst frá heilbrigðisráðuneytinu

Kári Stefásson skrifar:

Smári McCarthy heldur því fram að það megi rekja það til frekjukasts hjá mér að ÍE er að hætta þátttöku sinni í skimun á landamærum á næsta mánudag. Ég hvet Smára (og aðra) til þess að skoða hvað það er sem hann kallar enn eitt frekjukastið hjá mér:

Við höfum á þessum fjórum mánuðum vanrækt dagvinnuna okkar að því marki að það stefnir framtíð ÍE í hættu.

Við hjá Íslenskri erfðagreiningu(ÍE) erum búin að skima eftir veirunni í rúma fjóra mánuði og í um 74 þúsund Íslendingum, við erum búin að raðgreina hana úr öllum með staðfesta sýkingu, við erum búin að skima eftir mótefnum gegn veirunni í 30-40 þúsund Íslendingum, við erum búin að taka sýni úr meiri hluta þessa fólks og skipuleggja sýnatöku úr öðrum, við erum búin að senda fólk út á land í sýnatökur, við erum búin að leggja að mörkum sérþekkingu til þess að grafa eftir þekkingu í gögnunum sem urðu til og við erum búin að taka þátt í alls konar fundum sem hafa leitt til afdrifaríkra ákvarðana í sóttvörnum. Þetta höfum við gert af fúsum og frjálsum vilja sem sjálfboðaliðar og án þess að fá fyrir þetta greiðslu. Við höfum á þessum fjórum mánuðum vanrækt dagvinnuna okkar að því marki að það stefnir framtíð ÍE í hættu. Án þessa framlags hefði varla tekist að koma böndum á faraldurinn. Á þessum tíma höfum við ekki fengið eitt einasta símtal eða póst frá heilbrigðisráðuneytinu og höfum ekki haft aðgang að neinum upplýsingum um það hvernig hið opinbera ætlaði að taka við þeim verkefnum sem við höfðum séð um. Við sáum okkur ekki fært að halda áfram að leggja að mörkum til skimurnar á landamærum án þess að sjá fyrir endann á okkar þátttöku. Þess vegna sendi ég bréf til ríkisstjórnarinnar og fór fram á að hún gæfi út yfirlýsingu um að hún ætlaði strax að búa til stofnun sem gæti sinnt þessu. Svarið sem ég fékk var einhvern vegin svona:

Hvað heldurðu að þú sért? Við ætlum að setja verkefnastjóra í að skoða hvernig best væri að þessu staðið og hann skilar af sér 15. september eða eftir tíma sem jafnast á við þann tíma sem faraldurinn stóð yfir.

Þetta svar nægði hvergi til þess að við gætum séð fyrir lokin á okkar þætti í þessu svo við urðum að láta gott heita en gáfum ríkisstjórn 7 daga til þess að taka við, sem er mun lengri tími en tók okkur að setja upp þá aðstöðu sem við erum með til skimana. Sem sagt við hlupum til þegar það var ljóst að heilbrigðiskerfið gat ekki höndlað vandann. Við björguðum því sem bjargað varð og þegar við þurfum að snúa okkar að því að halda okkur sjálfum á floti flokkast það í huga Smára undir afleiðingar frekjukasts. Hann er með skringilegt höfuð á herðum sér hann Smári en alls ekki alvitlaust.

Hér eru skrif Smára McCarty:

Vandamálið er ekki að einkafyrirtækið Íslensk Erfðagreining ákveði að láta ekki misnota sig til eilífðar án samninga og samráðs ─ sem er algengt fyrirkomulag hjá ríkisstjórninni ─ heldur er vandamálið að við erum með ríkiskerfi sem er búið að grafa svo mikið undan í þágu einkafyrirtækja að kerfið gæti ekki virkað á tilskilinn hátt án þeirra. Það skrifast á Sjálfstæðisflokkinn og hamfarakapítalismanum þeirra, fyrst og fremst, ásamt þeirra viðhlæjendum í öðrum flokkum.

Það er nefnilega rétt sem Kári Stefánsson segir: Sýkla- og veirufræðideild LSH ætti undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera nægilega vel útbúin tækjum, aðföngum og mannskap til að geta tekist á við þetta verkefni. LSH ætti heilt yfir að vera betur í stakk búið en það er. Það er ekki skortur á fagþekkingu eða vilja til verksins, þvert á móti. En það er búinn að vera viðvarandi skortur á fjármagni.

Þetta er ekki bara í heilbrigðiskerfinu auðvitað. Sama hvert litið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn undanfarna áratugi notað valdastöðu sína til að moka verkefnum yfir á einkageirann, oftast með um 30% meiri kostnaði, og ábyrgðin áfram hjá ríkinu.

Einhvern veginn tókst til dæmis að byggja Ölfusárbrú árið 1945 þegar landið var nýstofnað, fátækt og nýkomið undan seinni heimsstyrjöld. En í dag, þegar Ísland er eitt ríkasta land heims er lífsins ómögulegt að byggja nýja brú án þess að fá einkaaðila að.

Það eina sem breyttist var viðhorf þeirra sem sitja að völdum ár eftir ár, áratug eftir áratug, til þess hvert hlutverk þeirra sé. Einu sinni snerist þetta um að búa til gott samfélag. Núna snýst þetta um að maka krókinn.

Fyrir vikið, þótt ég hefði gjarnan viljað sleppa því að sjá Kára Stefánsson taka enn eitt frekjukastið.

Fyrir vikið, þótt ég hefði gjarnan viljað sleppa því að sjá Kára Stefánsson taka enn eitt frekjukastið, sérstaklega þegar það gæti bitnað á almannaheilsu og öryggi, þá verð ég að viðurkenna að það er svolítið ánægjulegt að sjá ríkisstjórnina sem getur ekki tekið jafnvel auðveldustu ákvarðanir um almannahag fá ærlega á baukinn frá einum einkaaðilanum sem Sjallar hömpuðu á sínum tíma.

En Schadenfreude er vont nesti. Væri ekki betra ef ríkisstjórnin tæki sig til og gerði það sem þarf til að tryggja að Sýkla- og veirufræðideild LSH geti unnið úr þeim fjölda sýna á hverjum degi sem þörf er á, og það án þess að brenna út starfsfólkið í leiðinni?

Það væri fínt. En ég ætla ekki að halda niður í mér andanum. Vil ekki verða jafn blár og skepnan sem bjó til vandamálið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: